Þorsteinn Guðmundsson, Páll Guðmundsson og Helgi Eiríksson með Bæjargilið á Húsafelli í baksýn.

Arfleifð Húsfellinga verður gerð skil í nýju safni

Á undanförnum árum hefur í Húsafelli í Borgarfirði verið unnið að metnaðarfullu verkefni sem fram til þessa hefur ekki farið hátt í fjölmiðlum. Að því stendur lítill en samhentur hópur sem hefur það markmið að hefja til vegs og virðingar sögu og arfleifð Húsfellinga í aldanna rás. Þessi saga Húsafells og ábúenda jarðarinnar sem svo lengi var í þjóðleið milli landshluta, teygir sig aftur um einar fjórar aldir og alltaf kemur steinn og steinvinnsla við sögu, því þar hefur verið unnið í stein og er enn, því listamaðurinn Páll Guðmundsson hefur haldið bolta forfeðra sinna á lofti. Elsti legsteinn sem varðveist hefur var settur á gröf séra Gríms Jónssonar um 1650 en hann var prestur í Húsafelli næstur á undan séra Snorra Björnssyni. Á þennan stein er hoggið á latínu, íslensku og hebresku. Árið 1760 fara síðan synir séra Snorra prests að framleiða legsteina og minnist meðal annars Jónas Hallgrímsson skáld þessarar fornu iðnar á Húsafelli í ferðalýsingum sínum á fyrri hluta 19. aldar í grein sem hann nefndi Steina Húsafells.

Á bakvið kirkjuna og gamla bæinn á Húsafelli er nú risin lítil þyrping húsa sem öðlast mun nýtt hlutverk. Langt er komið með uppsteypu á húsi þar sem saga steinvinnslu á Húsafelli frá upphafi og til vorra daga verður sögð. Önnur hús í þyrpingunni eru gamla fjósið, súrheysturn við það og gamla Borgarpakkhúsið, yfir níutíu ára gamalt verslunarhús sem flutt var úr Borgarnesi fyrir nokkrum árum og sett á sökkul sunnan við fjósið. Hús þessi mynda síðan umgjörð um höggmyndagarð þar sem verk Páls Guðmundssonar verða til sýnis. Pakkhúsið hýsir steinhörpusafn Páls, en fjósið og súrheysturninn hafa að geyma verk hans af öðrum toga. Með Páli í þessari uppbyggingu á Húsafelli eru m.a. þeir Þorsteinn bróðir hans og verktaki á Fróðastöðum og Helgi Eiríksson á Kolsstöðum, sem kenndur er við Lumex. Auk þeirra eiga fleiri stóran þátt í því sem unnið hefur verið, m.a. þeir Unnsteinn Elíasson hleðslumeistari frá Ferjubakka og Eiríkur J. Ingólfsson húsasmíðameistari í Borgarnesi. Fleiri hafa komið að verkinu, með vinnu og ýmsum stuðningi. Blaðamaður Skessuhorns settist niður með þeim Helga, Þorsteini og Páli í liðinni viku og við fræðumst nánar um verkefnið og framtíðarsýn þeirra.

Ítarlega frásögn í máli og myndum er að finna í Skessuhorni sem kom út í dag.

Líkar þetta

Fleiri fréttir