Nýtt framboð í undirbúningi í Stykkishólmi

Hópur fólks í Stykkishólmi stefnir á framboð til bæjarstjórnar í sveitarstjórnarkosningunum í vor undir nafninu Okkar Stykkishólmur. Í tilkynningu frá hópnum kemur fram að hann hafi hist á óformlegum fundum frá því síðasta haust og rætt framtíð bæjarins. „Við eigum það sameiginlegt að vera tilbúin að leggja hönd á plóg með einum eða öðrum hætti í þágu samfélagsins, án þess að taka þátt í eða binda okkur við flokkapólitík. Við höfum þannig mótað okkar áherslur og gildi, sem hópurinn stendur fyrir,“ segir í tilkynningunni.

Hópurinn hefur opnað heimsíðuna okkarstykkisholmur.is þar sem áhugasamir geta kynnt sér áherslumál hópsins, auk þeirra gilda sem hópurinn leitast við að vinna eftir. „Við höfum einnig opnað samtal fyrir kosningarnar á betraisland.is. Samtalið er ný og skemmtileg leið þar sem íbúar á öllum aldri geta tekið þátt og sett fram sín áherslumál. Allir geta tekið þátt í umræðunni með rökum, með og á móti. Þannig vonumst við til að fá opna umræðu um það sem íbúum liggur á hjarta fyrir kosningarnar í vor.“

Á næstu vikum mun hópurinn vinna að því að undirbúa framboðslista fyrir komandi kosningar, ásamt því að kynna hugmyndir hópsins frekar fyrir bæjarbúum. „Ein af okkar áherslum er að samtal íbúa verði gagnlegt og heiðarlegt og vonumst við til að Hólmarar taki því fagnandi að fá einn valkost til viðbótar fyrir komandi kosningar,“ segir í tilkynningu frá Okkar Stykkishólmi.

Líkar þetta

Fleiri fréttir