Hótel Húsafell nú meðal úrvalshótela National Geographic

Hótel Húsafell er fyrst hótela hótelið hér á landi til að vera valið eitt af hótelum National Geographic Unique Lodges of the World, sem framúrskarandi gististaður á heimsvísu. Hótelið vilja samtökin hafa innan sinna raða. Í ljósi þess hversu skilyrðin til að uppfylla þennan úrvalshóp eru ströng er útnefningin markaðslega mjög sterk fyrir Hótel Húsafell og svæðið í heild. Öll hótelin hjá National Geographic þurfa að undirgangast stranga gæðaúttekt af óháðum fulltrúa og hefur ferli að útnefningunni staðið yfir frá því 2015 þegar hótelið var opnað. Mörg hótel eru skoðuð í þessu samhengi, en einungis fáum útvöldum boðin aðild, að undangenginni athugun. Hótelið er það fyrsta á Norðurlöndunum, en þau sem valin eru eiga það sameiginlegt að leggja áherslu á sjálfbærni, framúrskarandi þjónustu við gesti og eru umvafin stórbrotinni náttúru.

Unique Lodges hótelin eiga það öll sammerkt að vera á einstökum stöðum í heiminum þar sem gestir geta átt ógleymanlega upplifun í faðmi náttúru og sögu staðarins. Á meðal þeirra atriða sem horft er til við val á giststöðum er sjálfbær þróun á svæðinu, arkitektúr og hönnun, gæðaþjónusta og framúrskarandi veitingar. Staðbundin afþreying er einnig eitt af því sem tekið er eftir en mikið er af henni á Húsafell og í nærumhverfi.

Unnar Bergþórsson hótelstjóri er að vonum ánægður með þessa niðurstöðu og segir hana mikinn heiður. „Við teljum okkur reka mjög gott hótel hér á Húsafelli. Opnuðum í júlí 2015 og höfum alltaf lagt áherslu á að gestir upplifi faglega þjónustu og þægindi. Við höfum einnig stutt við menningu og náttúru á svæðinu og bjóðum uppá afþreyingu og viðburði, til dæmis tónleika í Húsafellskirkju, fjallahjól fyrir gesti og þematengdar gönguleiðir. Með því að styrkja innviði ferðaþjónustu á svæðinu vonum við að gestir okkar upplifi allt sem okkur þykir best við Húsafell og nágrenni,“ segir Unnar. Meðal þeirra atriða sem National Geograpic hefur til hliðsjónar við val á Hótel Húsafelli, er m.a. 100% sjálfbær nýting náttúruauðlinda, níu holu GEO-vottaður golfvöllur, endurbætt sundlaug, endurvinnsla sorps og að einstök listaverk eftir heimamanninn Pál Guðmundsson prýða hótelið.

 

Einstök upplifun

„Unique Lodges hótelin bjóða öll uppá einstaka upplifun fyrir alla sína gesti,“ segir Lynn Cutter hjá National Geographics. „Við erum mjög ánægð að hafa valið Hótel Húsafell sem eitt af okkar gististöðum, þar sem þau hafa sömu gildi og markmið og National Geographic, sem og það fólk sem ferðast á okkar vegum.“ Á vef National Geographic Unique Lodges of the World geta ferðamenn valið úr 57 hótelum á ólíkum stöðum í heiminum. Þeir sem bóka í gegnum vefinn fá ýmsa aukaþjónustu eingöngu í boði fyrir National Geographic. Á Hótel Húsafelli fær fólk sérstaka göngu- og fræðsluferð um sjálfbærni Húsafells og sögutengda staði auk annarra fríðinda.

Líkar þetta

Fleiri fréttir