Þorsteinn Þorvaldsson vélstjóri á Akranesi, sem nú er 93 ára gamall, var í fyrstu áhöfn Víkings árið 1960 og einn þeirra sem fór út til Þýskalands að ná í skipið nýtt. Hér er hann með eintak af bókinni.

Bók um aflaskipið Víking AK-100 komin út

Bókaútgáfan Hólar hefur nú gefið út bókina; „Víkingur, sögubrot af aflaskipi og skipverjum,“ sem rituð er af Haraldi Bjarnasyni blaðamanni. Í bókinni er sagt frá aðdraganda að smíði togarans Víkings AK-100 en hann kom nýr til Akraness 21. október 1960 og skipinu er fylgt í gegnum árin. Í bókinni eru mörg viðtöl við skipverja, sem á einhverjum tíma voru um borð í Víkingi en mislengi þó, og ýmsar sögur eru sagðar tengdar skipinu. Skipið var í rúma hálfa öld gert út frá Akranesi og alltaf með sama nafni og númeri. Það fór í sína hinstu sjóferð 11. júlí 2014 til Grenå í Danmörku þar sem það var rifið. Frá þeirri ferð var einmitt ítarlega sagt í stórri frásögn Haraldar sem birtist í Skessuhorni þá um sumarið. Haraldur Bjarnason höfundur bókarinnar mun árita Víkingsbókina í Eymundsson á Akranesi næstkomandi laugardag, 3. mars frá klukkan 12 til 14.

Víkingur var mikið happaskip alla tíð. Hann var smíðaður til að sækja á fjarlæg mið og því sett það markmið við smíðina að ganghraðinn væri mikill. Þótt Víkingur væri smíðaður sem togskip var hann þó lengst af gerðu út til nótaveiða og þar komu yfirburðir þessa gæðaskips aftur í ljós enda var það oftast í hópi aflahæstu nótaskipa.

Í bókarlok er viðauki um stofnun og aðdraganda að smíði Síldar- og fiskimjölsverksmiðju Akraness, sem lét smíða skipið og gerði það út þangað til Síldar- og fiskimjölsverksmiðjan var sameinuð HB&Co sem gerði út skipið þar til Grandi keypti HB&Co og til varð HB Grandi, sem gerði út Víking síðustu árin. Þá er einnig stuttur myndskreyttur kafli um komu nýs Víkings AK í desember 2015.

Bókarkápu prýðir málverk af Víkingi eftir myndlistarmanninn Baska, Bjarna Skúla Ketilsson, frá Akranesi. Bókin er að sögn Haraldar að berast í bókabúðir þessa dagana en einnig er hægt að kaupa hana ennþá á kynningarverði hjá höfundi með því að senda töluvpóst með nafni, kennitölu og heimilisfangi á netfangið hallibjarna@simnet.is og verður bókin þá send heim til kaupanda en kynningarverðið er 5.000 krónur sem innheimt verður í heimabanka.

„Víkingur, sögubrot af aflaskipi og skipverjum,“ er um 160 blaðsíður að stærð í stóru broti og rækilega skreytt myndum frá mörgum áhuga- og atvinnuljósmyndurum auk mynda frá skipverjum.  Víkingur var í rúma hálfa öld hluti af atvinnusögu Akraness og bókin á því talsvert erindi til Akurnesinga sem og alls áhugafólks um sjávarútveg og atvinnuþróun.

Líkar þetta

Fleiri fréttir