Draumurinn að geta verið veiðivörður á sumrin

„Að geta rölt út og fengið sér sæti uppi á hól og hugsað; „þetta er mín skrifstofa í dag,“ er nákvæmlega það sem ég vil geta gert alla góðviðrisdaga ársins,“ segir Magnús Fjeldsted í Borgarnesi í samtali við blaðamann. Magnús hafði unnið sem ráðgjafi í sex ár hjá Arion banka í Borgarnesi þegar hann ákvað að segja upp því starfi síðastliðið vor og fara að vinna sjálfstætt. „Draumaplanið var að geta fundið mér sæmilega vinnu við hæfi yfir veturinn en geta svo verið laus á sumrin og starfað sem veiðivörður. Ég hef verið veiðivörður í Gljúfurá í Borgarfirði í fjögur ár en seinasta vor bauðst mér að vera einnig afleysingavörður í Norðurá. Þetta var eitt besta sumarið mitt, að geta verið úti í náttúrunni að spjalla við veiðimenn og fá borgað fyrir það,“ segir Magnús og hlær.

Magnús er menntaður bakari og lærði síðar viðskiptafræði við Háskólann á Bifröst. Hann hefur nú aflað sér töluverðrar reynslu af fjármálaráðgjöf og nú um áramótin opnaði hann ráðgjafarfyrirtæki. „Ég er að aðstoða fólk með öll almenn skrifstofustörf, að borga reikninga, gera starfsmannasamninga og að sjá um tryggingamál. Ég er mest að aðtoða bændur en get alveg aðstoðað fleiri sem eru að reka smærri fyrirtæki. Eitt af því sem ég legg mikla áherslu á er að aðstoða menn við tryggingamál en það er eitthvað sem skiptir miklu máli að hafa í lagi og það mun alltaf borga sig, sérstaklega fyrir þá sem eru að reka bú eða önnur fyrirtæki. Tryggingamál geta verið flókin því fólk veit ekki alltaf hvað þarf að tryggja sérstaklega og hvað ekki. Ég get þá komið inn í og farið yfir hvaða tryggingar séu bestar og aðstoðað fólk við að fá sem hagstæðast verð,“ segir Magnús og bætir því við að starfsemin fari vel af stað.

Nánar er rætt við Magnús Fjeldsted í Skessuhorni vikunnar.

Líkar þetta

Fleiri fréttir