Björn Bjarki segir mál að linni í sveitarstjórn

Björn Bjarki Þorsteinsson oddviti Sjálfstæðisflokksins í Borgarbyggð og forseti sveitarstjórnar hefur ákveðið að gefa ekki kost á sér á framboðslista flokksins fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í vor. „Ég hef verið oddviti í þrennum kosningum þar sem unnust sigrar með sterkri og góðri liðaheild, góðum liðsanda og öflugum stuðningsmönnum. Kosningabaráttan hefur ávallt verið háð án neikvæðni gagnvart mótframbjóðendum, það er mikilvægt, jákvæðni er dýrmæt og verður seint ofmetin,“ segir Björn Bjarki og kveðst jafnframt líta stoltur um öxl eftir þessi 16 ár sem hann hefur setið í sveitarstjórn og þar af 12 ár sem oddviti Sjálfstæðismanna. „Staða Borgarbyggðar í dag er afar sterk eins og allar kennitölur bera vitni um, mannauðurinn er mikill og tækifærin gríðarleg í samfélaginu öllu. Ég trúi því og treysti að eftir kosningar haldist áfram góður starfsandi innan sveitarstjórnar,“ segir Björn Bjarki og bætir við að hann standi afar sáttur frá borði.

Uppstillingarnefnd er nú að störfum á vegum Sjálfstæðisfélaganna í Borgarbyggð en ekki liggur fyrir hvenær vinnu hennar lýkur.

Líkar þetta

Fleiri fréttir