Starfsmannabúðir gætu risið tímabundið á Akranesi

Auglýst hefur verið breyting á deiliskipulagi Flóahverfis á Akranesi. Í breytingunni felst meðal annars að veitt verður tímabundin heimild til að reisa starfsmannabúðir á fimm lóðum. Er með henni komið til móts við óskir verktakafyrirtækis sem vill reisa þar slíkar búðir. Flóahverfi er skilgreint sem athafnasvæði og ekki heimild fyrir starfsmannabúðum þar í gildandi skipulagi.

Heimild til að reisa starfsmannabúðir er tímabundin og gildir til fimm ára. Eftir það verður hægt að framlengja leyfið í tvígang, til eins árs í senn. Ekki eru gerðar breytingar á deiliskipulagsuppdrætti vegna tímabundinnar heimildar til þess að reisa starfsmannabúðir. Þeim skal komið fyrir í samræmi við gildandi lóðamörk, byggingarreiti og nýtingarhlutfall með tímabundinni fráviksheimild samkvæmt skipulagslögum. Ekki eru gerðar breytingar á skilmálum en viðbótarákvæðum er bætt við skipulagið. „Starfsmannabúðir skulu uppfylla ákvæði byggingarreglugerðar, reglugerðar um hollustuhætti og aðrar viðeigandi reglugerðir. Þær eru háðar byggingarleyfi sveitarfélags og starfsleyfi heilbrigðiseftirlits í samráði við vinnueftirlit ríkisins,“ segir í viðbótarákvæði. „Starfsmannabúðir eru færanlegar byggingar sem hýsa híbýli starfsmanna og aðstöðu þeirra til svefns, matar og daglegrar dvalar. Ekki er gert ráð fyrir að barnafjölskyldur búi í búðunum og verður ekki séð fyrir skóla- eða leikskólavist,“ segir þar enn fremur. Að auki kemur þar fram að Akranesbær muni setja sérstök skilyrði og skilmála í samninga um lóðir undir starsfmannabúðir og lóðarhafi skuli gangast undir þau skilyrði áður en slíkar búðir verði reistar.

Breytingartillagan við deiliskipulag Flóahverfis er nú í hefðbundnu auglýsingarferli til 16. mars næstkomandi. Hana má skoða í heild sinni á www.akranes.is.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Góður sigur ÍA

Skagamenn unnu góðan sigur á Stál-úlfi, 126-109, þegar liðin mættust í elleftu umferð í 2. deildar karla í körfuknattleik. Leikið... Lesa meira