Bökuðu yfir tvö þúsund sólarpönnukökur

Konur í Kvenfélagi Ólafsvíkur tóku daginn snemma síðasta fimmtudag. Þann dag var komið að árlegum bakstri á sólarpönnukökum. Bakað var í félagsheimilinu Klifi og handagangur í öskjunni þegar mest var að gera. Þarna voru vanar konur á ferð og sumar bökuðu pönnukökur á tveimur pönnum á meðan aðrar settu sultu og rjóma eða sykur á pönnukökurnar áður en þeim var pakkað og komið til skila á kaffistofur í bæjarfélaginu fyrir morgunkaffið. Um 20 konur mættu í baksturinn og bökuðu 2040 pönnukökur. Bakstur á sólarpönnukökum er ein af stóru fjáröflunum félagsins. Félagið hefur í gegnum tíðina styrkt mörg málefni og gefið hinum ýmsu stofnunum og félögum gjafir. Á síðasta ári gaf félagið til dæmis tæpar 800 þúsund krónur til hinna ýmsu félagasamtaka og stofnana.

Líkar þetta

Fleiri fréttir