Góð stemning var á söngkeppni SamVest í gær

Um 240 unglingar af öllu Vesturlandi voru saman komnir á söngkeppni félagsmiðstöðva á Vesturlandi sem haldin var í gær, fimmtudaginn 8. febrúar, í Hjálmakletti í Borgarnesi. Þar kepptu ellefu atriði frá átta félagsmiðstöðvum af öllu Vesturlandi um tvö sæti á söngkeppni Samfés sem fram fer í Laugardalshöll laugardaginn 24. mars. Að keppni lokinni var haldið ball þar sem DJ Red Robertsson sá um að halda uppi stuðinu og Maggi Mix kom sem óvæntur leynigestur og sló heldur betur í gegn að sögn aðstandenda keppninnar. „Keppnin var einstaklega vel heppnuð. Það voru allir duglegir að hvetja áfram sitt atriði og stemningin var mjög góð,“ segir Sigríður Dóra Sigurgeirsdóttir, tómstundafulltrúi í Borgarbyggð.

Keppendur stóðu sig allir mjög vel en að lokum voru það atriði frá félagsmiðstöðvunum Arnardal á Akranesi og Eden í Grundarfirði sem fóru með sigur af hólmi. Frá Arnardal söng Sigríður Sól Þórarinsdóttir lagið If I ain‘t got you, með söngkonunni Alicia Keys, og Katrín Lea Daðadóttir lék undir á bassa og Hekla María Arnardóttir á hljómborð. Frá Eden söng Elva Björk Jónsdóttir lagið Thinking out loud, með söngvaranum Ed Sheeran.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Góður sigur ÍA

Skagamenn unnu góðan sigur á Stál-úlfi, 126-109, þegar liðin mættust í elleftu umferð í 2. deildar karla í körfuknattleik. Leikið... Lesa meira