Við opnun Fiskmarkaðar Snæfellsness í morgun. F.v. Gísli Gíslason hafnarstjóri, Alexander Eiríksson hjá Norðursýn, Sævar Freyr Þráinsson bæjarstjóri, Bjarni Bragason útgerðarmaður og Andri Steinn Benediktsson framkvæmdastjóri Fiskmarkaðar Snæfellsbæjar.

Fiskmarkaður var opnaður að nýju á Akranesi í morgun

Í morgun var fiskmarkaður opnaður á ný á Akranesi. Markaðurinn verður rekinn í samstarfi við Fiskmarkað Snæfellsbæjar og verður til húsa á Faxabraut 5 í húsnæði sem Faxaflóahafnir eiga. Fyrsti aflinn verður boðinn upp klukkan 13 í dag, en það er fiskur af Eskey ÓF 80 sem gerir nú út frá Akranesi á vorvertíðinni. Í tilefni opnunar markaðarins var stutt athöfn í húsnæði markaðaðarins þar sem Sævar Freyr Þráinsson bæjarstjóri á Akranesi fagnaði þessum áfanga. Sagði hann undirbúning að markaðinum hafa staðið yfir undanfarnar vikur eða frá því ljóst var að Fiskmarkaður Íslands hætti rekstri markaðar á Akranesi.

„Það er afar mikilvægt að fiskmarkaður sé að opna á ný á Akranesi og við bjóðum Fiskmarkað Snæfellsbæjar velkominn. Við ætlum okkur að snúa vörn í sókn í útgerð á Akranesi. Bæjarstjórn Akraness hefur lagt á það áherslu að útgerð og fiskvinnsla verða áfram stór þáttur í atvinnustarfsemi á Akranesi og er rekstur fiskmarkaðar grunnstoð í þeirri áherslu,“ sagði Sævar Freyr. „Við Akranes eru gjöful fiskimið og það er okkar að nýta þau tækifæri sem felast í auðlindinni, aðstöðunni hér, mannskap og þekkingu. Það er sérstaklega ánægjulegt að finna að þrátt fyrir mótbyr þá hefur verið einhugur hjá einstaklingum í útgerð og vinnslu sem og hjá Faxaflóahöfnum að fiskmarkaður verði starfræktur á ný á Akranesi.“

 

Ekki hægt að reka sjálfstæða markaði allsstaðar

Andri Steinn Benediktsson, framkvæmdastjóri Fiskmarkaðar Snæfellsbæjar, fagnaði þessum áfanga. Markaðurinn sem hann veitir forstöðu hefur starfsemi á þremur útgerðarstöðum í Snæfellsbæ, en hefur auk þess selt fisk á Tálknafirði og Skagaströnd. Því er Akranes sjötti staðurinn sem fyrirtækið hefur starfsemi á. „Okkur er mikil ánægja að hefja samstarf með Skagamönnum. Markaðsaðstæður eru þannig í dag að ekki er hægt að reka sjálfstæða markaði á öllum stöðum sem gert er út frá og því er okkur ánægja að koma að þessu verkefni,“ sagði Andri Steinn.

 

Sala á fiski á ekki að vera háð duttlungum

Gísli Gíslason hafnarstjóri Faxaflóahafna sagði við þetta tilefni að fyrir framtíðar umsvif Akraneshafnar sem fiskihafnar, væri starfsemi fiskmarkaðar á Akranesi lykilatriði. „Það er ánægjulegt að öflugir heimamenn í samstarfi við Fiskmarkað Snæfellsbæjar hafa fundið flöt á samstarfi sem vonandi verður gjöfult og farsælt fyrir þá sem nú koma að málum.  Í Akraneshöfn er afbragðs aðstaða fyrir útgerðaraðila til að landa fiski og mikil tækifæri í fiskvinnslu, í nýsköpun, í verkefnum tengdum ferðaþjónustu, starfsemi veitingahúsa og fleira. Ég hef þá trú að með því skrefi að tryggja starfrækslu fiskmarkaðar verði nú hægt að sækja fram á fleiri sviðum,“ sagði Gísli. „Sala á fiski á ekki að vera háð hindrunum eða duttlungum í kerfinu sem neyðir sjómenn sem vilja gera út frá Akranesi til að sigla um langan veg með aflann. Þetta er því hagsmunamál mjög margra og ekki síst byggðarinnar á Akranesi,“ sagði Gísli. Hann gat þess í samtali við Skessuhorn að fleira jákvætt mætti nefna varðandi Akraneshöfn. „Nú í sumar eru bókaðar 17 komur skemmtiferðaskipa í Akraneshöfn og þjónusta því tengt mun því aukast. Þá er fyrirhuguð stækkun aðalhafnargarðs til að bæta aðstæður í höfninni og því get ég ekki annað en litið björtum augum til framtíðar. Vonandi er botninum náð varðandi ýmis mál sem tengjast Akraneshöfn,“ sagði Gísli.

 

Samstarf um afgreiðslu

Til að byrja með munu þeir Alexander Eiríksson sem rekur fiskvinnsluna Norðursýn og Bjarni Bragason útgerðarmaður á Eskey ÓF aðstoða útgerðarmenn á Akranesi varðandi markaðinn og aðstöðuna þar, svo sem móttöku og afgreiðslu á fiski og afgreiðslu á ís. Sjómenn bóka hins vegar væntanlegan afla á Akranes með hringingu í Fiskmarkað Snæfellsbæjar, sem hefur milligöngu um sölu fisksins.

Steindór Óliversson trillukarl á Akranesi var að vonum ánægður með að nú væri aftur búið að opna fiskmarkað í heimabæ hans. „Ég hef þurft að sigla með aflann að undanförnu til Reykjavíkur og stundum í slæmum veðrum. Það er náttúrlega mikið óhagræði fyrir karl eins og mig á fimm og hálfs tonna báti og því er ég afar ánægður með að þetta mál sé í höfn. Ég vil þakka bæjarstjórn fyrir framgöngu hennar og öllum sem komið hafa að máli. Ekki síst bæjarstjóranum okkar Sævar Frey fyrir að ganga rösklega til verka,“ sagði Steindór.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Góður sigur ÍA

Skagamenn unnu góðan sigur á Stál-úlfi, 126-109, þegar liðin mættust í elleftu umferð í 2. deildar karla í körfuknattleik. Leikið... Lesa meira