Fyrsta skóflustungan tekin að nýrri Frístundamiðstöð við Garðavöll á Akranesi. Helga Sjöfn Jóhannesdóttir, formaður ÍA, Þórður Emil Ólafsson, formaður Leynis, Guðmundur Sigvaldason, framkvæmdastjóri Leynis og Sævar Freyr Þráinsson, bæjarstjóri á Akranesi, eru hér byrjuð að taka grunninn en jarðvinnu verður haldið áfram með vélum eftir helgina.

Framkvæmdir við frístundamiðstöð á Akranesi formlega hafnar

Fyrsta skóflustungan var tekin að nýrri frístundamiðstöð við Garðavöll á Akranesi í dag að viðstöddu fjölmenni. Eru það Golfklúbburinn Leynir og Akraneskaupstaður sem standa að framkvæmdinni. Mun ný frístundamiðstöð hýsa félagsstarf Leynis og aðra frístundastarfsemi á vegum ÍA og Akraneskaupstaðar.

Guðmundur Sigvaldason, framkvæmdastjóri Golfklúbbsins Leynis, var að vonum ánægður með skóflustunguna, sem markar formlegt upphaf framkvæmda. „Það er ánægjulegt að þessum áfanga sé náð og hægt að hefja framkvæmdir,“ segir hann í samtali við Skessuhorn. „Allir samningar eru í höfn og allt gengur samkvæmt áætlun. Jarðvinna hefst á mánudaginn sem og flutningar á skrifstofum golfklúbbsins. Um miðjan febrúar hefst vinna við sökkla og kjallara og í framhaldi af því hefjast aðrir verkþættir einn af öðrum,“ segir Guðmundur.

Nýja frístundamiðstöðin mun rísa á lóðinni þar sem klúbbhús Leynis stóð áður, en það var rifið síðastliðinn miðvikudag. Nýja húsið verður rúmlega þúsund fermetrar að flatarmáli og skiptist í 700 fermetra jarðhæð og rúmlega 300 fermetra kjallara sem hýsa mun inniæfingaaðstöðu klúbbsins. Húsið verður byggt úr forsteyptum einingum og er áætlað að taka fyrri áfanga nýja hússins í notkun undir lok næsta sumars. Nær hann til uppsteypingar og frágangs byggingarinnar að utan, sem og 200 fermetra afgreiðslu og þjónustuhluta. Annar áfangi tekur síðan til fullnaðarfrágangs á 500 fermetra sal, ásamt eldhúsi og öðrum stoðrýmum.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Góður sigur ÍA

Skagamenn unnu góðan sigur á Stál-úlfi, 126-109, þegar liðin mættust í elleftu umferð í 2. deildar karla í körfuknattleik. Leikið... Lesa meira