Ingimar Oddsson í Dularfullu búðinni byrjar nú veitingasölu um næstu mánaðamót. Íslenskur matur verður sérstaðan.

Ætlar að bjóða upp á hádegisverðarhlaðborð á Akranesi

Ingimar Oddsson í Dularfullu búðinni við Skólabraut á Akranesi hyggst hefja veitingasölu í hádeginu alla virka daga frá og með 1. febrúar næstkomandi. „Hugmyndin er að bjóða upp á hlaðborð með íslenskum gamaldags heimilismat fyrir bæði vinnandi stéttir og ferðamenn. Ég er þá að hugsa um mat eins og plokkfisk, ýsu í raspi, kjötsúpu, kótelettur í raspi og fleira. Einnig verður alltaf súpa fyrir þá sem það vilja,“ segir Ingimar. Aðspurður segir hann hugmyndina fyrst og fremst hafa komið frá ferðamönnum. „Ég hef fundið hjá ferðamönnum að það vantar eitthvað annað en bara hamborgara og þennan hefðbundna skyndibitamat hér á Akranesi. Hefðbundinn íslenskur matur er stór hluti af því sem margir ferðamenn eru að leita eftir þegar þeir heimsækja landið, þeir vilja fá að taka inn allt þetta íslenska,“ bætir hann við.

Ekki hefur áður verið boðið upp á heitan mat í Dularfullu búðinni en Ingimar segir þetta bara vera byrjunina. „Ég hef margar hugmyndir sem mig langar að koma í framkvæmd hér í búðinni en ætla að byrja á þessu núna. Fljótlega langar mig líka að geta boðið upp á mat á kvöldin og þá svipað og í hádeginu. Ég hef ekki í huga að vera með fjölbreyttan matseðil heldur eingöngu svona rétti dagsins og þá eitthvað einfalt, fljótlegt og gott. Yfir daginn langar mig líka að geta boðið upp á fjölbreytt úrval af íslensku kaffimeðlæti eins og pönnukökur, kleinur, rúgbrauð með kæfu og flatkökur með hangiáleggi. Eitthvað sem er alveg nógu „retro“ til að passa í Dularfullu búðina“ segir Ingimar og hlær.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Mokveiði í dragnót

Dragnótarbáturinn Steinunn SH frá Ólafsvík lenti heldur betur í mokveiði rétt undan Ólafsvík á sunnudaginn. Köstuðu skipverjar dragnótinni aðeins þrisvar... Lesa meira