Tryggvi, Karl, Hallgrímur og Guðmundur, Vesturlandsmeistarar í bridds. Ljósm. Sveinbjörn Eyjólfsson.

Skagamenn öruggir Vesturlandsmeistarar í bridds

Vesturlandsmótið í sveitakeppni í bridds var spilað á Hesti í Borgarfirði um liðna helgi. Sex sveitir voru skráðar til leiks. Fimm þeirra höfðu keppnisrétt til að spila um þrjú sæti Vesturlands í undankeppni Íslandsmótsins í bridds. Hart var barist um þessi sæti og rafmögnuð spenna í síðustu setunni þegar úrlit loks réðust. Spennan um fyrsta sætið var reyndar aldrei mikil því fádæma yfirburðir einkenndu sveitina frá Bridgefélagi Akraness undir forystu Guðmundar Ólafssonar. Með honum spiluðu Hallgrímur Rögnvaldsson, Karl Alfreðsson og Tryggvi Bjarnason. Langefstir í Butler urðu þeir Karl og Tryggvi.

Þegar síðasta setan hófst voru þrjár sveitir allt að því jafnar að stigum. Þar af var sveit Jens Sigurbjörnssonar sem spilaði með Stefáni Arngrímssyni, Gísla Þórðarsyni og Ólafi Sigvaldasyni. Þeir höfðu vermt annað sætið allt frá byrjun móts. En í síðasta leik brast þeim úthaldið, enda höfðu tveir sveitarmeðlima þurft að dúsa hálfa nóttina í bíl sínum fastir í snjóskafli á Vatnaleið. Meðan gátu aðrir spilarar á mótinu undirbúið sig í fasta svefni. Lokasetan gaf því Snæfellingum ekkert stig sem hafði mikil áhrif á úrslitin. Annað sætið hrepptu unga fólkið úr Borgarfirði, sveit Önnu Heiðu Baldursdóttur. Með henni spiluðu Ingimundur Jónsson, Logi Sigurðsson, Heiðar Árni Baldursson og Eyjólfur Kristinn Örnólfsson. Á allra síðustu metrunum skaust svo sveit Jóns Eyjólfssonar ásamt Baldri Björnssyni, Lárusi Péturssyni og Sveinbirni Eyjólfssyni upp í þriðja sætið.

 

Úrslit urðu þessi:

  1. Guðmundur Ólafsson 80,13
  2. Anna Heiða Baldursdóttir 52,54
  3. Jón Eyjólfsson 52,19
  4. Sigurður Már Einarsson 48,50
  5. Jens Sigurbjörnsson 47,16
  6. Sveinn Hallgrímsson 19,48
Líkar þetta

Fleiri fréttir