Ásatrúarfólk blótar níu nætur á laugardaginn kl. 18

Ásatrúarfólki hefur fjölgað mjög á Akranesi og nágrenni á síðustu árum, að sögn Jóhönnu Harðardóttur Kjalnesingagoða sem býr í Hlésey skammt innan við minni Hvalfjarðar. „Á Skaganum er nú margt fullorðið, heiðið fólk og auk þess margar ungar fjölskyldur með börn og unglinga. Nú mun ég halda hátíðablót að Görðum daginn fyrir gamlársdag, á laugardaginn klukkan 18:00, nánar tiltekið við hringinn bak við Safnaskálann í Görðum. Blótið kallast Níu nætur,“ segir Jóhanna og útskýrir það nánar:

Hún segir að nafnið Níu nætur sé dregið af því að jól heiðinna manna eru á vetrarsólstöðum sem eru 22. desember. „Þann dag lofaði Gerður Gymisdóttir, sem er tákn sólarinnar, að verða kona frjósemisguðsins Freys og sagðist myndu hitta hann eftir níu nætur í skóginum Barra. Einmitt á þeim tíma fer næmt fólk að finna fyrir því að daginn er tekið að lengja á ný og því ætlum við að fagna hækkandi sól og biðja goðmögnin af gefa okkur bjarta framtíð.“

Jóhanna segir að þetta blót daginn fyrir gamlársdag sé ekki aðeins fyrir heiðið fólk. „Á jólablótum í Reykjavík er oft mikið af fólki sem er vant að fagna hækkun sólar. Það eru auðvitað allir sólardýrkendur og þeir sem hafa áhuga á kynnast einhverju nýju innilega velkomnir á Níu nætur við Garða. Eftir athöfnina sjálfa verður farið inn í Garðakaffi og í boði eru kaffi eða kakó til að ylja sér við.“

Líkar þetta

Fleiri fréttir