Frá vettvangi brunans í gærkveldi. Ljósm. gj.

Eldur kom upp í sögufrægu húsi í Borgarnesi

Undir kvöld í gær var allt tiltækt slökkvilið í Borgarnesi kallað út. Eldur logaði þá í íbúð á neðri hæð í húsinu við Skúlagötu 14. Enginn var í íbúðinni þegar eldurinn kom upp. Slökkvistarf gekk vel að sögn Bjarna Kr Þorsteinssonar slökkviliðsstjóra Borgarbyggðar. Allir gluggar í íbúðinni á neðri hæðinni voru lokaðir og því skorti eldinum súrefni til að ná sér á strik. Engu að síður urðu miklar skemmdir af sóti, hita og reyk. Ekki sér á húsinu að utan eftir brunann.

Skúlagata 14 er nær hundrað ára gamalt og sögufrægt hús í Borgarnesi. Það stendur á mótum Egilsgötu og Skúlagötu. Húsið teiknaði Guðjón Samúelsson húsameistari ríkisins og í það var starfsemi Sparisjóðs Mýrasýslu flutt árið 1920 þar sem hann var starfræktur allt til 1962 að flutt var í nýbyggingu við Borgarbraut 14, þar sem Ráðhúss Borgarbyggðar er í dag. Húsið við Skúlagötu hefur þó æ síðan verið kallað Gamli sparisjóðurinn.

Sparisjóður Mýrasýslu var starfræktur í húsinu í 42 ár, frá 1920 til 1962.

Líkar þetta

Fleiri fréttir