Sylvía og Marta tóku upp tvö lög sem flutt verða í útvarpinu.

Jólaútvarp GSNB ómar í vikunni

Útsendingar Jólaútvarps Grunnskóla Snæfellsbæjar hófust í gærmorgun, þriðjudaginn 11. desember og munu útsendingar standa yfir fram á laugardagskvöld. Undirbúningurinn á sér þó nokkurn aðdraganda, því síðustu vikur hafa yngri bekkir skólans unnið hörðum höndum að því að taka upp sína þætti í stúdíói. Eldri krakkarnir verða hins vegar í beinni útsendingu. „Þetta hefur verið þónokkur vinna en engu að síður gengið vel að undirbúa útsendingarnar og taka upp. Krakkarnir í 1. til 7. bekk hafa gert bekkjarþætti sem eru teknir upp fyrirfram, en 8. til 10. bekkur flytur sína þætti í beinni útsendingu eftir handriti sem krakkarnir hafa sjálfir skrifað,“ segir Margrét Lára Guðmundsdóttir kennari í samtali við Skessuhorn. Hún hefur haldið utan um undirbúning útvarpsútsendinga með krökkunum og verið þeim innan handar.

 

Fjölbreytt dagskrá

Handritsgerð er unnin sem verkefni í íslensku og gera allir krakkarnir handrit, hvort sem þeir vilja fara með þá í útvarpið eða ekki. Krakkarnir hafa val um að vera með í útsendingum en flestir hafa valið að taka þátt „Þátttakan er mjög góð, við erum með fimm þætti úr hverjum árgangi og flestir úr hverjum bekk vilja vera með,“ segir hún. Fyrir vikið eru efnistök þáttanna eins mismunandi og þættirnir eru margir og dagskráin afar fjölbreytt. „Núna er til dæmis verið að taka við tal við bæjarstjórann um pólitík, í beinni útsendingu,“ nefnir Margrét sem dæmi þegar hún ræðir við blaðamann. „Síðan má nefna brandaraþátt, sem samanstendur eingöngu af bröndurum og tónlist, ég held það verði skemmtilegt að hlusta á það. Þá verða fluttar jólasögur og svo er þáttur tveggja stúlkna í 8. bekk sem tóku viðtöl við fólk frá ýmsum löndum um jólahefðir, þar af verður eitt viðtalanna í beinni útsendingu,“ segir hún en tekur fram að þetta sé aðeins brot af efni útvarpsins að þessu sinni.

 

Útvarpsstjörnur framtíðarinnar

Þetta er í annað sinn sem krakkarnir í Grunnskóla Snæfellsbæjar bregða sér í hlutverk dagskrárgerðarmanna í desember og standa að útvarpsútsendingum. „Ég vona að þetta verði fastur liður og ætlun okkar er að reyna að halda þessu við. Þetta er skemmtilegt og gaman að sjá krakkana spreyta sig á öðruvísi vinnu og blómstra í útvarpinu,“ segir Margrét og er ekki í vafa um að í hópnum leynist útvarpsstjörnur framtíðarinnar.

Hlusta má á útsendingu Jólaútvarps Grunnskóla Snæfellsbæjar á tíðninni FM 103,5. Auk þess er að finna hlekk á heimasíðu skólans, www.gsnb.is, fyrir þá sem vilja hlíða á krakkana í tölvu eða snjalltækjum.

Líkar þetta

Fleiri fréttir