Andlát – Hildibrandur Bjarnason í Bjarnarhöfn

Hildibrandur Bjarnason bóndi, hákarlaverkandi og ferðafrömuður í Bjarnarhöfn á Snæfellsnesi lést 16. nóvember síðastliðinn. Hildibrandur fæddist 18. nóvember 1936 í Asparvík á Ströndum. Foreldrar hans tóku sig upp af Ströndum með barnahópinn sinn og fluttu árið 1951 búferlum að Bjarnarhöfn í Helgafellssveit. Þar hefur Hildibrandur og fjölskylda hans rekið myndarbú með sauðfé og hross en þekktastur er Hildibrandur fyrir verkun og sölu á hákarli og miðlun þekkingar og fróðleiks til ferðamanna sem í þúsundatali hafa sótt Bjarnahöfn heim á ári hverju. Á bæjarhlaðinu hefur verið reist myndarlegt safn um gamla búhætti og sjósókn og aðstæður til móttöku ferðafólks eru þar framúrskarandi.

Óhætt er að segja að Hildibrandur í Bjarnarhöfn sé fyrir löngu orðinn þjóðkunnur fyrir starf sitt, frásagnargáfu og litríka persónu. Hann var vinmargur sem glöggt sást fyrir réttu ári á áttræðisafmælinu þegar hann tók á móti yfir 300 gestum með gleði og söng heima í Bjarnarhöfn. Veikindi höfðu hrjáð hann síðustu misserin en af þekktri seiglu og með bjartsýni um bata tókst hann á við þann skafl allt til enda.

Hildibrandi í Bjarnarhöfn verður seint fullþakkað framlag hans til uppbyggingar ferðaþjónustu á Vesturlandi. Hann vann brautryðjandastarf sem eftir var tekið við varðveislu minja og miðlun sögu lands og þjóðar til gesta sem hingað komu hvarvetna úr heiminum. Fyrir hönd Vestlendinga allra eru honum að leiðarlokum færðar þakkir fyrir sinn skerf til samfélagsins. Eftirlifandi eiginkonu, börnum og ættmennum öllum eru færðar samúðarkveðjur. Eftir lifir minningin um mætan mann.

-mm

Líkar þetta

Fleiri fréttir