Snæfell galopnaði toppbaráttu 1. deildar karla í körfuknattleik með góðum sigri á Breiðabliki, 103-99, þegar liðin mættust í spennandi leik í Stykkishólmi í gær. Snæfellingar mættu ákveðnir til leiks og höfðu undirtökin í upphafsfjórðungnum. Þeir léku góða vörn sem skilaði nokkrum stolnum boltum og auðveldum körfum í kjölfarið. Í stöðunni 19-11 leist gestunum ekki á blikuna og skiptu yfir í svæðisvörn. Þannig tókst þeim að minnka muninn í tvö stig en Snæfell átti lokaorðið í upphafsfjórðungnum og hafði sjö stiga forskot að honum loknum, 28-21. Breiðablik minnkaði muninn í eitt stig snemma í öðrum fjórðungi, 37-36 en Snæfellingar náðu undirtökunum að nýju. Þeir hittu ágætlega úr skotum sínum og héldu gestunum í skefjum næstu mínúturnar. En Blikar áttu lokaorðið í fyrri hálfleik og tókst með góðri rispu að jafna metin í 51-51 og þannig var staðan í hléinu. Mikið jafnræði var með liðunum í upphafi síðari hálfleiks. Snæfellingar höfðu þó heldur undirtökin en Blikar fylgdu þeim eins og skugginn. Aldrei munaði meira en þremur stigum á liðunum fyrstu mínútur síðari hálfleiks. Um miðjan þriðja leikhluta snerist taflið við. Blikar tóku að sér að leiða með örfáum stigum og Snæfellingar brugðu sér í hlutverk skuggans sem fylgdi þeim hvert fótmál. Gestirnir höfðu tveggja stiga forystu fyrir lokafjórðunginn, 72-74. Fjórði leikhluti var æsispennandi og reyndi heldur betur á taugar bæði áhorfenda og leikmanna. Snæfell komst yfir í upphafi fjórðungsins og hafði tveggja stiga forystu þar til um hann miðjan. Þá komust Blikar tveimur stigum yfir en Snæfell jafnaði. Þegar 90 sekúndur voru eftir af leiknum var staðan jöfn, 95-95 og sigurinn gat fallið báðu megin. Snæfell skoraði næstu stig og var yfir, 101-99 þegar 14 sekúndur lifðu leiks. Blikar geystust upp í sókn en Snæfellingar stálu boltanum og skoruðu auðveldlega og tryggðu sér þar með sigurinn í leiknum, 103-99. Toppbaráttan galopin Fjórir leikmenn Snæfells skoruðu meira en 20 stig í leiknum. Stigahæstur var Christian Covile með 31 stig, en hann tók tíu fráköst að auki og gaf fimm stoðsendingar. Reynsluboltinn Sveinn Arnar Davíðsson var með 23 stig og sjö stoðsendingar, Þorbergur Helgi Sæþórsson 23 stig einnig og Viktor Marinó Alexandersson 20. Jeremy Smith var atkvæðamestur í liði gestanna með 27 stig, ellefu fráköst og fimm stoðsendingar en Árni Elmar Hranfsson, sem lék einmitt með Snæfelli síðasta vetur, skoraði 18 stig og gaf fimm stoðsendingar. Með sigrinum opnuðu Snæfellingar toppbaráttu deildarinnar upp á gátt. Þeir hafa tíu stig í þriðja sæti eftir fyrstu átta leiki vetrarins, jafn mörg og næstu lið fyrir neðan en tveimur stigum minna en Breiðablik í öðru sæti og fjórum stigum minna en topplið Skallagríms. Næsti leikur Snæfells er gegn Vestra í Stykkishólmi sunnudaginn 26. nóvember næstkomandi, en liðin eru einmitt jöfn að stigum í þriðja og fjórða sæti deildarinnar.