Ejub Purisevic hefur skrifað undir nýjan samning við Víking Ólafsvík um þjálfun karlaliðs félagsins. Samningurinn nær til tveggja ára og verður Ejub því við stjórnvölinn þegar Víkingur mætir til leiks í 1. deild karla næsta sumar. „Ejub hefur stýrt liði Víkings með eftirtektarverðum árangri um árabil og er það félaginu gleðiefni að hafa tryggt sér áframhaldandi þjónustu hans,“ segir í fréttatilkynningu frá Víkingi Ólafsvík. Ejub tók við liði Víkings árið 2003 og hefur stýrt því allar götur síðan, að frátöldu keppnistímabilinu 2009 þegar hann tók sér árs hlé. Á þeim tíma hefur Ejub komið liðinu úr neðstu deild Íslandsmótsins og upp í þá efstu, en Víkingur lék öðru sinni í Pepsi deild karla í knattspyrnu á liðnu sumri. Liðið féll úr deild þeirra bestu að loknu síðasta sumri, eftir harða fallbaráttu undir lok móts. „Framundan er barátta í Inkasso deildinni næsta sumar og eru leikmannamál félagsins í góðri vinnslu. Frekari frétta af því má vænta fljótlega,“ segir í tilkynningu frá félaginu.