2. október 2021
Fyrsta mót á Íslandsmeistara-mótaröðinni í klifri lauk um helgina með úrslitum í flokki 16-19 ára og 20+. Í 16-19 ára flokki sigraði Brimrún Eir Óðinsdóttir eftir spennandi bráðabana á móti keppanda frá Klifurfélagi Reykjavíkur. Landaði hún þar með þriðju medalíu ÍA um helgina. Fyrr hafði Sylvía Þórðardóttir landað silfri í 11-12 ára flokki og Hjalti Rafn Kristjánsson bronsi í sama aldursflokki. Mótið var vel sótt og voru um 200 klifrarar sem mættu til leiks, þar af 25 iðkendur frá ÍA. Framundan er Íslandsmeistaramót í línuklifri sem haldið verður í Björkinni í Hafnarfirði. Þar mun ÍA mæta til leiks með gula og glaða keppendur í 11-12 ára flokki og 16-19 ára flokki.