Umhverfisviðurkenningar Borgarbyggðar voru veittar á Sauðamessu sem haldin var í Borgarnesi síðastliðinn laugardag. Gunnlaugur A Júlíusson sveitarstjóri veitti viðurkenningarnar í Skallagrímsgarði. Traðir í Hraunhreppi hlutu viðurkenningu sem snyrtilegasta bændabýlið 2017. Í rökstuðningi með dómnum segir að þar sé einstaklega snyrtilegt heim að líta, mikil áhersla lögð á að halda öllum mannvirkjum vel við og umgengni til mikillar fyrirmyndar. Viðurkenning fyrir snyrtilegustu lóð við íbúðarhús veittist Svövu Finnsdóttur á Bóndhóli. „Aldingarðurinn umhverfis hús Svövu Finnsdóttur í Bóndhól er einstakur og ótrúlegt verk einnar manneskju en þennan garð hefur hún verið með í ræktun í aðeins í 22 ár, eða frá 1995. Fjölbreytni trjáa og jurta er þar mikil og þar er að finna fágætar og verðmætar plöntur. Umhirða garðsins er einstök, natni og fagmennska mikil,“ segir meðal annars í rökstuðningi. Lóð Kaupfélags Borgfirðinga var valin snyrtilegasta lóð við atvinnuhúsnæði. Umhirða gróðursvæða er þar til mikillar fyrirmyndar og aðkoma og ásýnd mjög snyrtileg, að því er segir í rökstuðningi. Að lokum fékk Landámssetur Íslands sérstök umhverfisverðlaun Umhverfis-, skipulags- og byggingarnefndar. „Landnámssetrið hefur að leiðarljósi að vera til fyrirmyndar í umhverfismálum og leitast við að hafa jákvæð áhrif á umhverfi og samfélag í ákvarðanatöku og þjónustu,“ segir í rökstuðningi. Fyrirtækið leggur áherslu á flokkun úrgangs og tekur tillit til umhverfissjónarmiða í allri starfseminni, til dæmis við val á birgjum og tegundum umbúða.