2. október 2021
Félagar í björgunarsveitinni Lífsbjörgu í Snæfellsbæ notuðu veðurblíðuna um síðustu helgi til að halda æfingu með fluglínu. Var til þess notaður báturinn Sæljós sem dreginn var fyrr á þessu ári upp í fjöruborðið skammt frá Rifshöfn. Hafþór Svansson starfandi formaður Lífsbjargar sagði í samtali við Skessuhorn að það hefði verið kominn tími á að æfa björgun með fluglínu og rifja upp hvernig staðið væri að slíkri æfingu. Aldrei sé hægt að vita fyrirfram hvenær fluglínu þurfi næst að nota við björgun. Sagði Hafþór að margt mætti læra af æfingu sem þessari. „En þetta gekk eins og í sögu,“ sagði hann.