Sunnudaginn 1. október voru 25 ár liðin frá því að Félag eldri borgara í Grundarfirði var stofnað. Var þessara tímamóta minnst á aðalfundi félagsins sem haldinn var á afmælisdaginn í Samkomuhúsi Grundarfjarðar. Aðalhvatamaðurinn og fyrsti formaður félagsins var Guðmundur Runólfsson og með honum í stjórn voru Ólafur Gíslason gjaldkeri og Vigdís Gunnarsdóttir ritari. Meðstjórnendur voru Páll Torfason og Kristín Friðfinnsdóttir og endurskoðandi Elís Guðjónsson. Frá stofnun hefur félagið látið muna um sig í félagsstarfi eldri borgara í Grundarfirði sem og látið sig varða hagsmuni þeirra. Ýmsar skemmtanir og uppákomur hafa verið fastir liðir í starfi félagsins þessi 25 ár. Má þar nefna þorrablót, spilakvöld og ýmis ferðalög lengri og skemmri. Þá hefur verið starfandi kór eldri borgara svo eitthvað sé nefnt. Allir þeir sem orðnir eru 60 ára geta gerst félagar og var lögð áhersla á það á aðalfundinum að hvetja þyrfti til aukinnar þátttöku þeirra sem orðnir eru gjaldgengir í félagið til þess að styrkja starfið. Meðal verkefna félagsins er að annast um svokallað Nesball á þriggja ára fresti en það er sameiginlegur fagnaður félaga eldri borgara á Snæfellsnesi en Nesballið verður einmitt haldið í Samkomuhúsinu Grundarfirði laugardaginn 7. október nk. Á Nesballi er boðið upp á glæsilegan kvöldverð og síðan endað á dansleik. Á aðalfundinum félagsins urðu nokkrar breytingar á stjórn og varastjórn og er ný stjórn þannig skipuð. Formaður er Gunnar Kristjánsson, ritari Steinunn Hansdóttir og gjaldkeri Kristján Guðmundsson. Meðstjórnendur eru Ragnheiður Sigurðardóttir, Sverrir Karlsson og Fríða Tómasdóttir.