Laugardaginn 25. nóvember næstkomandi hefur verið ákveðið að halda tvímenningsmót í bridds til minningar um Þorstein Pétursson frá Hömrum í Reykholtsdal, sem lést síðastliðið sumar 86 ára að aldri. Þorsteinn hafði mikla unun af spilamennsku. Aðallega spilaði hann lomber og bridds og varð m.a. Íslandsmeistari í tvímenningi eldri spilara árið 1994. Hann starfaði talsvert að félagsmálum og var m.a. formaður Bridgefélags Borgarfjarðar. Hann ásamt fleirum beitti sér fyrir að bridds yrði kennt í héraðinu, börnum sem fullorðnum, og átti drjúgan þátt í að Bridgefélag Borgarfjarðar var og er eitt fjölmennasta briddsfélag landsins. Nú vinna félagar og aðstandendur Þorsteins að undirbúningi fyrsta minningarmótsins, meðal annars söfnun stuðningsaðila. Boðið er til þátttöku spilurum af Vesturlandi sem og víðar af landinu. Gert er ráð fyrir að mótið verði tvímenningskeppni, standi yfir mestallan daginn og keppt verði um fjölda verðlauna. Farandbikar verður veittur sigurvegurum til varðveislu í ár. Allur ágóði af mótinu mun renna óskiptur til Bridgefélags Borgarfjarðar til kynningar og fræðslu um bridds.