Íbúaþing um farsæl efri ár var haldið á Akranesi síðastiðinn miðvikudag. Þingið var haldið á sal Grundaskóla og var afar vel sótt, en þátttakendur voru um 90 talsins. Var það Ingrid Kuhlmann hjá Þekkingamiðlun ehf. sem stýrði viðburðinum. Markmiðið með þinginu var að leita svara við fjórum spurningum: Hvað er gott við að eldast á Akranesi? Hvernig viltu sjá málefni eldri borgara á Akranesi þróast? Hvernig getur Akraneskaupstaður stuðlað að farsælum efri árum? Hvað getum við sem einstaklingar gert til að stuðla að farsælum efri árum? Unnið var eftir þjóðfundarfyrirkomulagi á þinginu, sem ætlað er að tryggja virka þátttöku og möguleika allra þátttakenda til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Sköpuðust miklar umræður í hópunum sem voru síðan kynntar öðrum fundarmönnum. Niðurstöður þingsins verða síðan teknar saman og birtar opinberlega í lok október. Niðurstöðurnar verða nýttar til stefnumótunar í málefnum eldri íbúa Akraness, að því er fram kemur á vef Akraneskaupstaðar.