Ragnar Jakob Kristinsson og Sigurður Karlsson hafa látið af störfum í Munaðarnesi eftir að hafa verið staðarhaldarar þar í rúmlega tvö ár. Nú hafa vinahjón þeirra, Elín Arna Arnardóttir Hannam og Ólafur Haukur Ólafsson tekið við keflinu. „Núna erum við að taka staðinn í gegn og gera þetta að okkar,“ segir Elín Arna þegar blaðamaður heyrði í henni í gær. „Við tókum við 1. september en höfum ekki tekið ákvörðun um hvenær við opnum. Við stefnum á að hafa jólahlaðborð og svo gæti vel farið svo að við gerum eitthvað meira í vetur, það verður bara að koma í ljós. Mögulega opnum við ekki fyrr en næsta vor,“ segir Elín Arna. „Það eru ekki fyrirhugaðar neinar stórar breytingar á staðnum eins og er og verður þetta líklega með svipuðu sniði og verið hefur. Yfir veturinn stefnum við á að hér verði hægt að hafa veislur, ráðstefnur og þess háttar og á sumrin verðum við með veitingasölu. Við þjónustum nokkur sumarhús og erum með hostel, sem við gætum þó hugsanlega breytt í smáíbúðir, en það er ekkert ákveðið,“ bætir Elín Arna við. „Vinir okkar voru að reka þetta en voru að hætta svo við ákváðum að sækja um. Þetta hentar okkur vel og við erum mjög spennt fyrir þessu verkefni,“ segir Elín Arna aðspurð hvað hafi orðið til þess að þau Ólafur Haukur ákváðu að taka þetta verkefni að sér. „Við erum með fyrirtæki í bænum og eigum hús þar svo ég geri ráð fyrir að við verðum svona fram og til baka en þetta á allt eftir að koma betur í ljós, við erum svo nýlega búin að taka við þessu,“ segir hún.