Það var hreint ekkert sjálfgefið að Íslendingar kæmust af hér á árum og öldum áður. Landið var harðbýlt og hér voru vetrarhörkur svo miklar að lífsnauðsynlegt var að birgja heimilin upp af forða ætti heimilisfólk að lifa veturinn af. Fyrir rafvæðinguna var frysting matar ekki kostur og því þurfti að geyma hann með þeim aðferðum sem þekktust, eða voru fundnar upp. Fiskur var þurrkaður, hertur eða saltaður, sláturmatur og kjet var súrsað, saltað og reykt, egg lögð í kös og svo framvegis. Íslendingar komu sér því af hreinni nauðsyn upp geymsluaðferðum sem dugðu en byggðu um leið upp matarmenningu sem að flestu leyti varð einstök á heimsvísu. Með iðnbyltingunni og breyttum tímum hefur fokið hratt yfir slóð þessarar matarmenningar og raunveruleg hætta á að ýmislegt falli í gleymskunnar dá, sé því ekki kerfisbundið haldið á lofti. Til eru þeir sem eru stoltir af matarmenningu okkar og sjá tækifærin í að miðla til gesta okkar og næstu kynslóða. Sjá ítarlega frásögn í Skessuhorni vikunnar.