2. október 2021
Dregið var í 32 liða úrslitum Maltbikars karla í körfuknattleik í gær. Alls voru 34 lið skráð til leiks og því var dregið í forkeppni samhliða. Þá eru fjögur neðri deildar lið dregin út og munu keppa um tvö laus sæti í næstu viku. Þrjú Vesturlandslið eru skráð til leiks í bikarkeppninni að þessu sinni; ÍA, Skallagrímur og Snæfell. Þegar dregið var upp úr pottinum varð ljóst að ÍA mætir úrvalsdeildarliði Hattar á Akranesi, Skallagrímur heimsækir 2. deildar liðið Njarðvík B og Snæfell heimsækir 3. deildar lið Álftaness. Allir leikirnir í 32 liða úrslitum Maltbikarsins fara fram dagana 14. til 16. október næstkomandi.