Borgarfjarðarbrú á fjöru árið 2005. Ljósm. Mats Wibe Lund.

Borgarfjarðarbrú orðin lengsta brú landsins

Í síðustu viku var umferð hleypt á Morsárbrú á Skeiðarársandi og þar með ekki lengur ekið yfir hin 880 metra löngu Skeiðarárbrú. Á vef Vegagerðarinnar er sagt frá því að þegar vatn tók að renna í vestur þegar Vatnajökull tók að hopa. Þar með rann ekki lengur vatn í farveg Skeiðarár og ljóst að ekki væri lengur þörf fyrir brúna. Eftir stendur bergvatnsáin Morsá og brúin yfir hana sem brúarvinnuflokkur Vegagerðarinnar byggði á síðasta ári. Hún er 68 metra eftirspennt brú og hefur nú verið tekin í notkun.

Skeiðarárbrú var á sínum tíma gríðarlega mikilvæg samöngum á Íslandi. Hún var tekin í notkun árið 1974 og hringvegurinn um leið, þar sem áður var enginn vegur yfir Skeiðarársand. Verkefnið sem fólst í fleiri brúm og vegagerð var að hluta til fjármagnað með happdrætti. Ríkið gaf út happdrættis-skuldabréf til tíu ára og tók þannig lán hjá almenningi sem einnig átti möguleika á vinningi. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um framtíð Skeiðarárbrúar, að því er fram kemur á vef Vegagerðarinnar.

Þegar Skeiðarárbrú var aflögð í síðustu viku varð Borgarfjarðarbrúin lengsta brú landsins sem enn er í notkun. Hún er 520 metrar að lengd og var vígð við hátíðlega athöfn sunnudaginn 13. september árið 1981. Framkvæmdir við brúarsmíði yfir Borgarfjörð höfðu þá staðið yfir í sex ár. Frá upphafi var Borgarfjarðarbrúin sú næstlengsta á landinu allt þar til nú, að hún er í fyrsta skipti sú lengsta.

Líkar þetta

Fleiri fréttir