Útgerð og fiskvinnsla að líða undir lok á Akranesi – tólf starfmenn enn án atvinnu

Á morgun, fimmtudaginn 31. ágúst, verður síðasti vinnudagur í bolfisksvinnslu HB Granda á Akranesi. Þá taka gildi uppsagnir starfsfólks sem ekki fær vinnu innan fyrirtækisins eða hjá dótturfélögum þess, og ekki hefur fengið störf hjá öðrum fyrirtækjum. Eins og kunnugt er færist nú öll bolfisksvinnsla frá Akranesi og í vinnsluna við Norðurgarð í Reykjavík. Að sögn Vilhjálms Vilhjálmssonar forstjóra munu 29 starfsmenn af Akranesi flytjast yfir í vinnsluna í Reykjavík og hefja þar störf á föstudaginn. Nokkrir að auki hafa fengið störf hjá hrognavinnslu Vignis G Jónssonar og hjá Norðanfiski á Akranesi. Tólf starfsmenn hafa, að sögn Vilhjálms, ekki fengið aðra vinnu, hvorki innan HB Granda eða hjá öðrum, og verða því án atvinnu eftir morgundaginn.

 

Viðræður um nýtingu fiskvinnsluhúsa

Vilhjálmur segir að skoðað sé með nýtingu fiskvinnsluhúsa og mannvirkja fyrirtækisins sem nú missa hlutverk sín á Akranesi. „Við erum að fara yfir húsnæðisþörf okkar fyrirtækja á staðnum, þ.e. Vignis G Jónssonar og Norðanfisks. Þá hafa verið uppi þreyfingar við einn aðila um nýtingu á húsnæði bolfisksvinnslunnar og á ég von á því að það skýrist fyrir næstu helgi hvort af samningum verður. Meira geta ég ekki sagt um það á þessari stundu,“ segir Vilhjálmur í samtali við Skessuhorn.

 

„Útgerð mátti aldrei hætta“

Merkja má mikinn trega í fólki á Akranesi sem nú sér fyrir endann á 111 ára starfsemi í húsum Haraldar Böðvarssonar og Co. Meðal annars hefur verið hvatt til þess að föstudaginn 1. september verði flaggað í hálfa stöng á Akranesi.

Einn af fyrrum starfsmönnum HB Granda skrifar: „Fyrir nokkrum árum hefði þurft að segja mér það tvisvar að útgerð og fiskvinnslu yrði hætt á Akranesi, trúlega í eitt skipti fyrir öll. Við sem eldri erum munum þá tíð að hér byggðist nánast allt á því að vel aflaðist og útgerðin gengi sinn vana gang. Ég get ekki stillt mig um að segja að hér bjó afburða fólk í öllu sem varðaði þessa starfsemi, og Akurnesingar þurftu lítið að sækja til annarra í þeim efnum. Þvert á móti. Þeir voru áratugum saman í fararbroddi. Nú blasir það við að hægt verður að skrifa útgerðarsögu Akurnesinga, eins og hún leggur sig,“ skrifar Jón Frímannsson rafvirki sem um áratugaskeið stýrði rafmagnsverstæði HB & co við góðan orstír. Hann bætir því við að Skagamönnum muni leggjast eitthvað til, vonandi. „En ég held að sá tími komi að það renni upp fyrir mönnum að útgerð frá Akranesi mátti aldrei hætta. Það er glapræði,“ skrifar Jón.

 

Líkar þetta

Fleiri fréttir