Þau Gunnar Smári Jónbjörnsson, Sunnefa Burgess og Jóhann Örn Jónbjörnsson ætla að opna CrossFit stöð á Akranesi í september. Ljósm. arg.

Opna CrossFit stöð á Akranesi í næsta mánuði

Bræðurnir Gunnar Smári og Jóhann Örn Jónbjörnssynir ásamt Sunnefu Burgess hafa unnið hörðum höndum síðustu mánuði að undirbúningi vegna opnunar CrossFit stöðvar á Akranesi. Stöðin, sem hefur fengið nafnið CrossFit Ægir, verður opnuð 11. september og verður til húsa við Vesturgötu 119. „Við höfum sjálf verið að æfa CrossFit í Sporthúsinu í Kópavogi en okkur fannst vanta aðstöðu hér á Akranesi,“ segja þau aðspurð hvaðan þessi hugmynd hafi komið. „Upphaflega ætluðum við bara að opna litla stöð sem myndi reka sig sjálf, bara aðstöðu fyrir okkur til að æfa,“ segir Gunnar Smári. „Um leið og þetta spurðist út fundum við að áhuginn fyrir CrossFit stöð væri mikill í bæjarfélaginu svo þetta vatt aðeins upp á sig,“ bætir Sunnefa við.

„Þeir sem ætla að æfa CrossFit þurfa að byrja að fara á grunnnámskeið og við ætlum að keyra strax af stað með það,“ segir Gunnar Smári og bætir því við að til að byrja með verði fimm WOD (workout of the day) á dag og geta þeir sem hafa grunn í CrossFit strax mætt í þau. „Fyrst um sinn verður bara opið þegar WOD eru í gangi því við ætlum öll að halda áfram að vera í 100% vinnu og þetta verður bara aukavinna,“ segir Jóhann og bætir því við að þegar fram í sæki sé stefnan að fá starfsmann til að halda stöðinni opinni allan daginn. „Við verðum öll að þjálfa og erum komin með tvo aðra þjálfara með okkur auk gestaþjálfara sem ætla að koma með námskeið. Til að mynda ætlar Evert Víglundsson þjálfari hjá CrossFit Reykjavík að koma með helgarnámskeið í september,“ segir Gunnar Smári.

Aðspurð hvort markaður sé fyrir svona stöð á Akranesi segir Sunnefa það vera. „Við erum að fá allavega tíu fyrirspurnir á dag þar sem fólk er að spyrja hvenær við opnum og hvort hægt sé að skrá sig strax. Það eru margir búnir að segja okkur að þeir ætli að skrá sig svo við höfum ekki áhyggjur af því,“ segir hún. „Við erum búin að setja upp heimasíðu, crossfitaegir.is, þar sem fólk getur séð allar upplýsingar, tímatöflu og verð. Við erum mjög þakklát fyrir þann áhuga sem íbúar hér hafa sýnt,“ bæta þau við að lokum.

Líkar þetta

Fleiri fréttir