Hraundís Guðmundsdóttir í bás sínum á Hrafnagili með verðlaunin. Ljósm. Guðrún Bjarnadóttir.

Hraundís valin handverkskona ársins

Handverkshátíðin 2017 fór fram á Hrafnagili í Eyjafirði frá fimmtudegi og lauk í dag. Þar mættu 150 sýnendur sem settu upp fjölbreytta og skemmtilega sýningu og veðrið lék við mannskapinn. Árlega er valinn handverksmaður ársins á sýningunni. Að þessu sinni komu verðlaunin í hlut Hraundísar Guðmundsdóttur á Rauðsgili í Borgarfirði. Hún framleiðir og selur ilmkjarnaolíur.

Framleiðsla ilmkjarnaolíanna fer fram á Rauðsgili. Allar plönturnar eru handtíndar á jörðinni eða í nágrenninu, fjarri allri mengun. Rauðsgil hefur verið með lífræna vottun frá Túni síðan 2007. Til að búa til ilmkjarnaolíur eru plöntur eimaðar í sérstökum eimingartækjum. Það er mismunandi hvaða hlutar plöntunnar eru notaðir en það eru ýmist blóm, blöð, rætur, fræ, nálar, börkur eða öll plantan sem er notuð. Hundrað gráðu heit gufa er leidd í gegnum plöntuna og við það losnar olían. Eins og nýverið kom fram í Skessuhorni hefur Hraundís nýverið tekið nýjan eimketil í notkun og getur því margfaldað framleiðslugetuna. Ekki veitir af enda mun viðurkenning þessi vafalítið auka hróður ilmkjarnaolíu Hraundísar.

Líkar þetta

Fleiri fréttir