Atvinnukylfingurinn Valdís Þóra Jónsdóttir úr Golfklúbbnum Leyni á Akranesi stóð uppi sem sigurvegari á Íslandsmótinu í höggleik sem fór fram á Hvaleyrarvelli og lauk í dag. Valdís Þóra lék hringina fjóra á 10 höggum yfir pari og sigraði að lokum með tveggja högga mun eftir æsispennandi einvígi við Guðrúnu Brá Björgvinsdóttur. Valdís Þóra hóf lokadaginn jöfn Guðrúnu Brá í efsta sæti og voru þær enn jafnar þegar einungis fórar holur voru eftir á 12 höggum yfir pari. Á 15. holunni, sem ber heitið Yfir hafið og heim, fékk Valdís frábært par eftir erfitt glompuhögg á sama tíma og Guðrún Brá missti stutt par pútt. Valdís átti því eitt högg þegar þrjár holur voru eftir. Valdís og Guðrún fengu báðar flotta fugla á 16. holu og því enn högg á milli þeirra fyrir 17. holuna þar sem Valdís fékk glæsilegan fugl. Holan var skorin aftast á flötina og því erfitt að komast nálægt í innáhögginu en Valdís leysti það gríðarlega vel og fékk fugl. Á 18. holunni fengu þær svo báðar par og sigurinn því í höfn hjá Valdísi. Þetta er í þriðja skiptið sem Valdís Þóra fagnar Íslandsmeistaratitlinum.