Valdís Einarsdóttir safnvörður Byggðasafns Dalamanna hefur staðið fyrir kvöldgöngum víða í Dölum í sumar. Dagskráin var sett af stað í hreyfiviku UMFÍ og var þá farið um gönguleið í Svínadal. Áætlað er að kvöldgöngur Byggðasafnsins verði tíu til tólf talsins og að dagskráin standi fram í ágúst. Nú þegar hefur verið gengið um Svínadal, upp Nónhæð á Fellsströnd, um Salthólmavík í Saurbæ, meðfram Skraumu í Hörðudal, farið um fossa og réttir í Haukadal og gengið um Sælingdalstungu. Valdís segir skipulagið byggja á því að hafa göngurnar einfaldar og að þær henti sem flestum. Þátttakendum er velkomið að leggja orð í belg þegar kemur að því að fræða um sögur staðanna: „Þetta byggist allt á lágmarksundirbúningi og von um að einhver mæti sem kann frá einhverju að segja, annars lýg ég bara einhverju,“ segir Valdís létt í bragði. „Við eigum nóg af perlum út um alla Dali. Ég er með lista yfir hugsanlegar kvöldgöngur og sumarið dugar ekki til að tæma þann lista,“ segir Valdís og hvetur fólk til að fylgjast með á Facebook síðu Byggðasafns Dalamanna og á dalir.is