„Við erum komnir í 455 laxa en í fyrra veiddust 650 laxar allt sumarið. Þetta gengur flott og fiskurinn er búinn að dreifa sér um alla ána,“ sagði Jón Þór Júlíusson við Grímsá í Borgarfirði í samtali við Skessuhorn í byrjun vikunnar. Þar gengur veiðin vel líkt og í Haffjarðará, Langá og ekki síst í Þverá sem rauf þúsund laxa múrinn í síðustu viku. Þá hefur verið þokkalegur gangur í Norðurá. „Veiðin gengur vel hjá okkur í Langá,“ sagði Karl Lúðvíksson um stöðuna á bökkum Langár á Mýrum. Flókadalsá var að komast yfir 200 laxana í vikubyrjun og veiðimenn sem voru að hætta í henni sögðu þetta vera allt í lagi. Þeir fengu nokkra væna fiska. Vestur í Dölum gengur veiðiskapurinn frekar rólega. Haukadalsá var komin í 133 laxa á mánudaginn og mætti vera betri veiði. Laxá í Dölum var á sama tíma að komast yfir 100 laxana. ,,Fiskurinn er tregur að taka,“ sagði Jón Þorsteinn Jónsson sem var við veiðar í henni nýlega, en fékk nokkra laxa. Straumfjarðará er komin yfir 100 laxa og veiðin þar hefur verið þokkaleg. Kíkt var í Álftá í vikunni og í Hrafnshyl lágu tveir laxar en enginn var að reyna að veiða þá. Svisslendingurinn Doppler er með ána á leigu og veiðir þar af og til og beitir þá maðki. Veiðimenn sem nýverið voru við veiðar í Reykjadalsá í Borgarfriði fengu sjö laxa, en heildarveiðin í ánni er um 20 fiskar það sem af er sumri. Við heyrðum aðeins í þeim þegar þeir voru að hætta veiðunum. „Við fengum sjö laxa og misstum þrjá. Þetta var allt í lagi, smá líf að færast í ána,“ sagði Grétar Sigurbjörnsson. „Við fengum laxana á nokkrum stöðum eins og Mjóanesáli og Sturlu-Reykjastreng meðal annars. Það er vonandi að koma fleiri laxar í ána,“ bætti hann við, en þess ber að geta að Reykjadalsá er ætíð best síðla sumars. Staðan er því sú að víða mætti vera meira af smálaxi, allavega í sumum ánum. Á næsta stóra straumi er mikilvægt að góðar göngur þeirra skili sér.