Eins og gengur eru ekki allar veðurspár sem ganga eftir. Síðastliðinn mánudag var því t.d. spáð að eftir því sem liði á vikuna myndi sannkallað blíðviðri færast yfir vestanvert landið, með sól og hita. Nú hafa lægðir og hæð tekið annan pól í hæðina og kollvarpað þeirri spá. Mestu veðurblíðunni er nú spáð um norðaustanvert landið framyfir helgi. Í dag er spáð austlægri átt, 13-18 m/s syðst á landinu framan af degi, en annars yfirleitt 8-13 og hægviðri norðvestan til. Skýjað með köflum og úrkomulítið, en fer að rigna vestantil í kvöld og víða verður væta í nótt. Þá verður suðaustlæg eða breytileg átt, 3-8 m/s og þokumóða eða dálítil súld á morgun, en léttir smám saman til norðaustanlands. Hiti 12 til 25 stig í dag, hlýjast í innsveitum norðaustan til, en ögn svalara á morgun. Á laugardag er spáð suðaustan 8-13 m/s og súld eða rigningu með köflum sunnan- og vestanlands, en hægara og víða léttskýjað á norður- og austurlandi. Hiti 12 til 25 stig, hlýjast norðaustanlandslands. Á sunnudag verður suðvestan 3-10 m/s, skýjað með köflum og sumsstaðar lítilsháttar væta, en léttskýjað norðaustanlands. Hiti 12 til 20 stig, hlýjast fyrir norðan.