Vesturlandsslagur Pepsi deildar karla í knattspyrnu fór fram í gærkvöldi þegar Víkingur Ó. og ÍA mættust í Ólafsvík. Leikurinn var jafnframt botnslagur umferðarinnar, fyrir leik var Víkingur í 10. sæti með tíu stig og ÍA stigi á eftir með í 11. og næstneðsta sætinu. Leikurinn fór rólega af stað og liðin vörðu fyrstu mínútunum í að þreifa fyrir sér. Fyrsta færi leiksins fengu Skagamenn á 14. mínútu. Tryggvi Hrafn Haraldsson flikkaði boltanum í átt að marki úr mjög erfiðri stöðu og boltinn datt ofan á þverslána. Aðeins tveimur mínútum síðar fékk Víkingur aukaspyrnu djúpt á vinstri kanti. Emir Dokara sendi boltann inn í teiginn, aðeins til vinstri við vítapunktinn, í átt að Guðmundi Steini Hafsteinssyni. Guðmundur gerði vel með varnarmann í bakinu og náði að teygja sig í boltann og flikka honum með ristinni í fjærhornið, framhjá Ingvari Þór Kale í marki Skagamanna. Einkar snyrtilega gert hjá Guðmundi og Víkingur kominn yfir, 1-0. Skagamenn voru heldur sprækari fyrst eftir markið en tókst ekki að skapa sér nein afgerandi marktækifæri. Bestu marktilraun þeirra átti Tryggvi Hrafn með skoti fyrir utan teig sem Christian Martinez varði vel í marki Víkings. Litlu munaði að Víkingur bætti við marki á 38. mínútu. Þeir sendu langa sendingu fram völlinn sem barst alla leið á Ingvar Kale í marki Skagamanna. Þorsteinn Már Ragnarsson pressaði boltann alla leið. Þegar Ingvar hugðist spyrna boltanum fram völlinn fór ekki betur en svo að boltinn fór beint í Þorstein og þaðan rétt framhjá markinu. Á síðustu mínútum fyrri hálfleiks dró svo aftur til tíðinda. Patryk Stefanski fékk gult spjald þegar hann braut á Kwame Quee. Skömmu síðar fékk hann sitt annað gula spjald og þar með rautt þegar hann elti lága sendingu sem Christian í marki Víkinga greip örugglega. Patryk fylgdi hins vegar eftir á fullri ferð en var allt of seinn og endaði á að fara með takkana í Christian. Skagamenn þar með orðnir manni færri þegar flautað var til hálfleiks. Rólegri síðari hálfleikur Síðari hálfleikur fór rólega af stað og tíu leikmenn ÍA náðu ekki að ógna marki Víkings. Heimamenn náðu heldur ekki að skapa sér nein afgerandi marktækifæri. Það var helst að leikmenn liðanna reyndu að ógna með tilraunum af löngu færi. Besta færið kom á 75. mínútu. Þórður Þorsteinn Þórðarson tók hornspyrnu á Garðar Gunnlaugs sem skallaði á markið. Christian varði og boltinn barst aftur á Þórð úti á kanti. Þórður leit upp og lét vaða lét vaða á markið en Christian varði vel. Eftir því sem leið á féllu leikmenn Víkings aftar á völlinn og þéttu varnarmúrinn en Skagamenn sóttu hvað þeir gátu. Steinar var nálægt því að komast í gegn á 84. mínútu en Tomasz Luba bjargaði með glæsilegri tæklingu. Pape Mamadou Faye var nálægt því að lauma að öðru marki Víkings með góðu skoti úr þröngu færi sem Ingvar varði vel. Í uppbótartíma komst Þórður í ákjósanlegt færi og var í þann mund að láta skotið ríða af þegar Emir komst fyrir boltann og bjargaði í horn. Var það síðasta færi leiksins og sem lauk því með 1-0 sigri Víkings. ÍA vermir botnsætið Með sigrinum lyfti Víkingur sér upp í 7. sæti með tíu stig. Eru þeir komnir í þéttan pakka um miðja deild, eru tveimur stigum á eftir KA og Víkingi R í sætunum fyrir ofan og stigi á undan Fjölni og Breiðabliki í næstu sætum fyrir neðan. Fjölnir á þó leik til góða. Næst leikur Víkingur á sunnudaginn, 23. júlí, þegar liðið mætir Val í Ólafsvík. Skagamenn verma hins vegar botnsæti deildarinnar með níu stig og eru tveimur stigum á eftir ÍBV og KR í sætunum fyrir ofan, en síðarnefnda liðið á enn fremur leik til góða. Næsti leikur ÍA er á sunnudaginn, 23. júlí, en þá heimsækja Skagamenn lið FH í Hafnarfjörðinn.