Hlaupahópurinn Flandri í Borgarnesi átti fjóra fulltrúa í hinu árlega Laugavegshlaupi sem fram fór síðastliðinn laugardag. Allir skiluðu sér í mark, þrátt fyrir fremur erfiðan mótvind mestan hluta leiðarinnar. Samtals lögðu 487 hlauparar af stað úr Landmannalaugum um morguninn og þar af komust 430 á leiðarenda í Þórsmörk innan tilskilinna tímamarka. Stefán Gíslason náði bestum tíma Borgnesinganna en hann hljóp kílómetrana 53 á 5:55:56 klst. Þetta var fjórða Laugavegshlaup Stefáns og naut hann því góðs af fyrri reynslu. Árangur hans tryggði honum öruggan sigur í flokki 60 ára og eldri. Kristinn Óskar Sigmundsson kom í mark á 6:06:35 klst í sínu fyrsta Laugavegshlaupi, Gunnar Viðar Gunnarsson hljóp á 6:29:14 klst og Auður H Ingólfsdóttir á 9:01:15 klst. Gunnar var að hlaupa í annað sinn og náði að bæta fyrri tíma þrátt fyrir meiðsli sem hrjáðu hann á leiðinni. Þetta var fyrsta Laugavegshlaup Auðar, en hún hafði sett sér það meginmarkmið að ná tímamörkum í Emstrum. Þangað þurftu allir að ná á innan við 6 klst en vera dæmdir úr leik ella. Auður var vel innan þessara marka og lauk hlaupinu með glæsibrag. Laugavegshlaupið er jafnframt sveitakeppni, þar sem keppt er í fjögurra manna sveitum karla og kvenna og í blönduðum sveitum (2 karlar og 2 konur). Gunnar, Kristinn og Stefán mynduðu hlaupasveitina Flandratröll ásamt Birki Þór Stefánssyni, bónda í Tröllatungu á Ströndum, sem hefur átt mikið og gott samstarf við Flandra síðustu árin. Birkir var að hlaupa Laugaveginn í annað sinn og kom í mark á sama tíma og Gunnar, 6:29:14 klst. Samanlagður tími fjórmenninganna var því 25:00:59 klst sem dugði í 3. sætið í sveitakeppninni. Samtals voru átta karlasveitir skráðar til leiks. Björgunarsveitin Heiðar í Borgarfirði leigði Flöndrurum bíl til ferðarinnar og Haukur Þórðarson tók að sér hlutverk bílstjóra. Það væsti því ekki um hlauparana og að þeirra sögn var þjónustustigið í ferðalaginu með því hæsta sem gerist. Það mun reyndar bæði hafa gilt um bílferðina og hlaupið sjálft, þar sem framkvæmdin þótti takast með eindæmum vel. Sjá má heildarúrslit Laugavegshlaupsins á síðunni hlaup.is.