Gera má ráð fyrir rigningu og hvassviðri í dag. Spáð er að gangi í suðaustan 10-23 m/s upp úr hádegi með rigningu sunnan- og vestanlands en hvassast verður við suðvesturströndina. Talsverð rigning verður suðvestanlands en mikil rigning á Suðausturlandi og undir Eyjafjöllum þegar líður á daginn. Þurrt verður um landið norðaustanvert. Snýst í mun hægari suðvestlæga átt með skúrum suðvestantil undir miðnætti. Suðaustan 10-15 m/sek á morgun, en hægari vestantil. Rigning sunnan- og síðan einnig vestanlands síðdegis, en lengst af bjartviðri norðaustantil. Hiti verður 10 til 20 stig í dag, hlýjast norðaustantil á landinu, en sums staðar allt að 25 stiga hiti norðaustanlands á morgun. Eftir því sem líður á vikuna hlýnar verulega um vestanvert landið.