Bryndís Guðmundsdóttir í leik með Snæfelli. Ljósm. sá.

Bryndís mun ekki spila með Snæfelli í vetur

Landsliðskonan Bryndís Guðmundsdóttir, sem undanfarin ár hefur leikið með Snæfelli í meistaraflokki kvenna í körfu, mun ekki spila með liðinu í vetur þar sem hún á von á barni í janúar. Karfan.is greinir frá. „Ég kem ekki til með að spila í það minnsta á komandi tímabili þar sem ég er ólétt,“ segir Bryndís í samtali við Karfan.is.

Undanfarin tvö keppnistímabil hefur Bryndís leikið með Snæfelli. Hún varð Íslands- og bikarmeistari með liðinu árið 2016. Áður lék hún með Keflavík. Samtals hefur hún sex sinnum orðið Íslandsmeistari í körfuknattleik og fjórum sinnum bikarmeistari.

Bryndís gat lítið æft með Snæfelli síðasta vetur vegna þess að erfiðlega gekk að púsla saman körfuboltanum og vinnunni, en hún starfar sem flugfreyja. Hún vill ekki útiloka að snúa aftur í boltann en á alveg eins von á því að leggja skóna á hilluna. „Ég ætla ekkert að segja að ferlinum sé endanlega lokið þó svo að líkurnar eru kannski meiri en minni,“ sagði Bryndís við Karfan.is.

Líkar þetta

Fleiri fréttir