Pólska fraktskipið SS Wigry fórst á Faxaflóa í óveðri aldarinnar 15. janúar 1942.

Minnisvarði um SS Wigry afhjúpaður á sunnudag

Sunnudaginn 28. maí verður afhjúpaður á Syðra-Skógarnesi á sunnanverðu Snæfellsnesi minnisvarði um pólska flutningaskipið SS Wigry. Afhjúpun minnisvarðans verður laust eftir hádegi, eða klukkan 12:30.

Hinn 15. janúar árið 1942 sökk pólska fraktskipið SS Wigry ásamt fjölþjóðlegri áhöfn sinni á Faxaflóa, skammt frá Hjörsey, í aftakaveðri sem stundum hefur verið kallað „óveður aldarinnar“. Skipið var eitt margra í skipalest á leið frá Reykjavík til New York í Bandaríkjunum. Aðeins tveir af 27 manna áhöfn komust lífs af; íslenski skipverjinn Bragi Kristjánsson, sem þá var aðeins 18 ára gamall, og pólski stýrimaðurinn Ludwik Smolski. Meirihluti skipverja komst við illan leik í björgunarbát en honum hvolfdi og náðu aðeins nokkrir skipverjar að komast á kjöl hans. Þegar komið var undir morgun freistuðu þeir fjórir skipverjar sem eftir lifðu þess að komast til lands á sundi. Aðeins Bragi og Smolski náðu landi, hinir tveir drukknuðu í flæðarmálinu. Þegar í land var komið skreið Bragi aðframkominn 1,2 kílómetra leið að bænum Syðra-Skógarnesi í Miklaholtshreppi. Greindi hann Kristjáni Kristjánssyni bónda frá atburðunum. Kristján fór tafarlaust niður í fjöru og bjargaði þar með lífi Smolski, sem þá lá meðvitundarlaus í fjöruborðinu.

 

Kransar og rósum fleytt

Minnisvarðinn hefur verið reistur á Syðra-Skógarnesi um atburðinn og áletrun greypt á plötu verið komið fyrir á honum. Áletrunin er eftirfarandi: „Til minningar um pólskt skip, SS Wigry, sem sökk út af Hjörsey 15. janúar 1942 og áhöfn þess. 25 menn fórust og 2 björguðust og bar þá flesta að landi hér fyrir framan. Með þökk til Kristjáns Kristjánssonar bónda á Syðra Skógarnesi. Samtök Pólverja á Íslandi reistu þennan minnisvarða í tilefni af því að 75 ár eru liðin frá harmleiknum. 16.01.2017.”

Afjúpun minnisvarðans verður kl. 12:30 sunnudaginn 28. maí. Kransar verða lagðir að minnisvarðanum og 25 rósum fleytt á haf út til minningar um skipverjana sem týndu lífi sínu. Sendiherra Póllands á Íslandi verður viðstaddur athöfnina ásamt eiginkonu sinni og öðrum gestum. „Hallgrímur N. Sigurðsson var svo góður að aðstoða okkur með steininn og erum við þakklát fyrir hans stuðning,“ segir í tilkynningu frá samtökum Pólverja á Íslandi.

Laugardaginn 10. júní næstkomandi verður síðan sýningin „Minning þeirra lifir“ opnuð í Sjóminjasafninu í Reykjavík og verður hún uppi út júnímánuð. Þar verður hægt að sjá líkan af SS Wigry.

Líkar þetta

Fleiri fréttir