Vitundarvakning um ófrjósemi

Tilvera, samtök um ófrjósemi, stendur fyrir vitundarvakningu í þessari viku um ófrjósemi. Átakið nefnist 1 af 6 en áætlað er að einn af hverjum sex glími við sjúkdóminn hverju sinni. Talið er að þriðjungur skýringarinnar sé að finna hjá körlum, þriðjungur hjá konum en þriðjungur er óútskýrð ófrjósemi. „Markmið vitundarvakningarinnar er að vekja athygli á ófrjósemi og þeim sorgum og sigrum sem fólk gengur í gegnum þegar það þarf að nýta sér aðstoð tækninnar til að eignast barn og nauðsyn þess að allir hafi jafnan aðgang að meðferðum og þurfi ekki frá að hverfa vegna kostnaðar,“ segir í kynningu frá Tilveru.

Í tengslum við vitundarvakninguna hefur kvikmyndafyrirtækið Bergsól ehf. framleitt sex myndbönd sem nefnast 1 af 6 en þar en þar segir fólk frá glímunni við sjúkdóminn á afar áhrifaríkan hátt. Myndböndin verða sýnd á RÚV í þessari viku. Þá verður Kastljós með umfjöllun um málefnið í kvöld, þriðjudaginn 16. maí.

„Allir þekkja pressuna sem er á ungu fólki um að finna sér maka, giftast og eignast börn í fyllingu tímans. Því miður eru ekki allir svo heppnir að geta látið þennan draum rætast án aðstoðar tækninnar. Um 15-20% para á barneignaaldri á við ófrjósemi að stríða og veruleikinn sem við þeim blasir er oft á tíðum erfið þrautaganga vonar og vonbrigða. Auk þess fer fæðingartíðni lækkandi en árið 2016 voru lifandi fædd börn á hverja konu 1,745. Gera má ráð fyrir að um 150 börn fæðist á hverju ári eftir glasa-/smásjármeðferðir og eru þar börn fædd eftir tæknisæðingar eða önnur inngrip ekki meðtalin. Ófrjósemi hefur í för með sér gríðarlegt andlegt álag. Rannsóknir sýna að andlega álagið sem fylgir ófrjósemi er svipað því sem fylgir því að vera greindur með krabbamein en skilningur á vandanum er oft takmarkaður í samfélaginu og í heilbrigðiskerfinu.“

Nánar má lesa um félagið á: http://tilvera.is

Líkar þetta

Fleiri fréttir