Arnar látinn fara frá Svendborg Rabbits

Borgfirðingurinn og körfuknattleiksþjálfarinn Arnar Guðjónsson mun ekki halda áfram þjálfun danska úrvalsdeildarliðsins Svendborg Rabbits. Forsvarsmenn félagsins hafa ákveðið að endurnýja ekki samning Arnars, sem rann út eftir tímabilið.

Arnar stýrði liðinu nýverið til bronsverðlauna í dönsku úrvalsdeildinni, fyrstu verðlauna liðsins síðan 2013. Hins vegar segir í tilkynningu á heimasíðu Svendborg Rabbits að stjórn félagsins vilji ráða nýjan þjálfara til að takast á við auknar kröfur. Þá segir að það sé forgangsmál hjá stjórninni að ráða aðalþjálfara sem er ekki landsliðsþjálfari einnig.

Arnar er sem kunnugt er aðstoðarþjálfari Craig Pedersen hjá íslenska karlalandsliðinu, en hann var áður aðstoðaþjálfari hans hjá Svendborg Rabbits. Þegar Craig tók alfarið við landsliðinu tók Arnar við sem aðalþjálfari félagsins á síðasta keppnistímabili, en mun nú þurfa að róa á önnur mið.

Líkar þetta

Fleiri fréttir