Nemendur Ártúnsskóla til vinstri og Lýsuhólsskóla til hægri, ásamt kennurum. Ráðherra er fyrir miðri mynd.

Lýsuhólsskóli útnefndur varðliði umhverfisins

Björt Ólafsdóttir umhverfis- og auðlindaráðherra afhenti í dag umhverfisverðlaunin Kuðunginn fyrir framúrskarandi starf að umhverfismálum á síðasta ári. Það var Endurvinnslan sem hlaut verðlaunin. Við sama tækifæri voru nemendur í Ártúnsskóla í Reykjavík og Lýsuhólsskóla – Grunnskóla Snæfellsbæjar, útnefndir Varðliðar umhverfisins.

 

Framúrskarandi verkefni

Nemendur í Lýsuhólsskóla settu á síðasta ári upp sýningu í Salthúsinu á sjávarbakkanum í Malarrifi í samvinnu við þjóðgarðinn Snæfellsjökul. Nemendur öfluðu upplýsinga um staðinn með viðtölum og settu þær fram á fjölbreyttan hátt, svo sem á sérbúnum flettispjöldum, á skiltum úr dagblaðapappa í formi saltfisks og í sérstöku fugla-minnisspili fyrir yngstu sýningargestina. Fróðleikur um Lóndranga, álfa og tröll var útlistaður með myndrænum hætti og náttúruleg efni nýtt eins og hægt var, efni endurunnið og endurnýtt og t.a.m. voru hillur undir sýningargripi smíðaðar úr flutningsbrettum. Í sérstöku framhaldsverkefni greindu nemendur gestabók sýningarinnar út frá heimalöndum gesta og settu fram niðurstöðurnar í súluriti og á heimskorti með ferðaleiðum gestanna auk þess sem unnin voru kynningarspjöld um lönd og menningu gestanna. Segir í umsögn valnefndar að um sé að ræða; „framúrskarandi verkefni þar sem börnin rannsökuðu eigin átthaga út frá umhverfi, sögu og menningu og komu sinni sýn á umhverfið á framfæri við gesti frá öllum heimshornum með skapandi hætti.“

Viðurkenningarnar til Ártúnsskóla, Endurvinnslunnar og Lýsuhólsskóla voru afhentar á hátíðarathöfn sem haldin var í dag í Hannesarholti í Reykjavík.

Líkar þetta

Fleiri fréttir