Brimrún Eir Óðinsdóttir tryggði sér annað sætið í flokki unglingsstúlkna á glæsilegu Bikarmeistaramóti sem fram fór í Klifurhúsinu um helgina. Stúlkurnar klifruðu fjórar leiðir og Brimrún Eir toppaði þrjár leiðir í fjórum tilraunum. Gabríela Einarsdóttir úr Björkinni toppaði þrjár leiðir í þremur tilraunum og fór því með sigur af hólmi. Brimrún Eir hafði áður tryggt sér annað sætið á Íslandsmeistaramótaröðinni á eftir Gabríelu. Þar með er keppnistímabilinu lokið og útitímabilið farið í gang, en það hófst formlega á Sumardaginn fyrsta með útiklifri í Akrafjalli. Þar mættu klifrarar frá ÍA ásamt gestum af höfuðborgarsvæðinu og klifruðu nýjar leiðir og létu örlitla snjókomu og rok ekki á sig fá. Að sögn Þórðar Sævarssonar formanns félagsin er framundan hjá ÍA í sumar þátttaka í samnorrænum æfingabúðum sem verða haldnar hér á landi. Þar munu sterkustu klifrarar Norðurlandanna á aldrinum 12-18 ára hittast og æfa saman yfir heila viku.