2. október 2021
Valdís Þóra Jónsdóttir, atvinnukylfingur úr Golfklúbbnum Leyni, hefur leik á Lalla Meryem Cup mótinu í Marokkó nú í morgunsárið. Mótið er þriðja mót ársins á LET Evrópumótaraðarinnar í golfi og annað mót tímabilsins hjá Valdísi í þessari sterkustu mótaröð Evrópu, en hún hafnaði í 51. sæti á fyrsta mótinu sem fram fór í Ástralíu. Valdís á teig eftir rúmar tvær klukkustundir, klukkan 10:06 að íslenskum tíma en klukkan 8:06 að staðartíma í Marokkó. Hún er í ráshóp með heimakonunni Lina Belmati og hinni sænsku Jenny Haglund fyrstu tvo keppnisdagana. Alls eru keppnishringirnir fjórir í mótinu og niðurskurður eftir tvo hringi. Heildarverðlaunafé í mótinu nemur um 55 milljónum íslenskra króna.