Snæfell og Stjarnan mættust í þriðja undanúrslitaleik Íslandsmóts kvenna í körfuknattleik í gær. Leikið var í Stykkishólmi. Fyrir leikinn í gær leiddu Snæfellskonur viðureignina með tveimur sigrum gegn engum. Með sigri gátu þær því tryggt sér sæti í úrslitum, sem þær og gerðu. Snæfell leiddi frá fyrstu mínútu og sigraði að lokum örugglega, 84-70 og farseðillinn í úrslitin tryggður, fjórða árið í röð. Gangur leiksins Snæfell byrjaði leikinn af miklum krafti og Stjarnan lenti strax í því að elta. Gestirnir léku prýðisgóða vörn framan af fyrsta leikhluta og en áttu á sama tíma erfitt uppdráttar í sókninni. Seint í upphafsfjórðungnum náðu Snæfellskonur smá rispu og þægilegri forystu. Þær leiddu 23-13 eftir fyrsta leikhluta. Í öðrum fjórðungi bætti Snæfell jafnt og þétt við forskotið. Mest munaði 20 stigum á liðunum, í stöðunni 42-20 skömmu fyrir hálfleik. En leikmenn Stjörnunnar voru ekki á því að gefast upp og með snörpum leikkafla á lokamínútum fyrri hálfleiks tókst þeim að minnka muninn í tíu stig fyrir hléið, 44-34. Snæfellskonur komu ákveðnar til síðari hálfleiks og þegar þriðji leikhluti var hálfnaður voru þær aftur komnar með 20 stiga forskot, 62-42 og róðurinn gestanna heldur betur farinn að þyngjast. Snæfellskonur leiddu 69-53 eftir þriðja leikhluta. Stjarnan gerði lokatilraun til að komast inn í leikinn í lokafjórðungnum. Í upphafi hans héldu þær Snæfelli stigalausu fyrstu þrjár mínúturnar og minnkuðu muninn í tíu stig. Á sama tíma fór Gunnhildur Gunnarsdóttir, fyrirliði Snæfells, af velli með fimm villur og Stjörnukonur hugsuðu sér gott til glóðarinnar. En þeim tókst ekki að gera sér mat úr því. Snæfell hélt velli í sókninni og lék prýðilega vörn og Stjarnan komst aldrei nær en sem nam níu stigum, í stöðunni 77-68 þegar tvær mínútur lifðu leiks. Snæfellsliðið er einfaldlega númeri of stórt fyrir Stjörnuna, hefur á að skipa breiðari hópi og betri leikmönnum. Á lokamínútunum jók Snæfell forskotið lítillega og að lokum fór svo að Hólmarar sigruðu með 14 stigum, 84-70. Tíu á stigatöfluna Allir tíu leikmenn Snæfells sem tóku þátt í leiknum komust á blað. Á sama tíma skoruðu fimm leikmenn fyrir Stjörnuna af þeim tíu sem spiluðu leikinn. Aaryn Ellenberg var atkvæðamest leikmanna Snæfells með 25 stig, 14 fráköst og 6 stoðsendingar. Berglind Gunnarsdóttir skoraði 17 stig og Bryndís Guðmundsdóttir var með 15 stig og 5 fráköst. Í liði Stjörnunnar var Bríet Sif Hinriksdóttir stigahæst með 23 stig, Danielle Rodriguez skoraði 21 stig og tók 9 fráköst og Ragna Margrét Brynjarsdóttir var með 14 stig og 9 fráköst. Annar í páskum Sem fyrr segir tryggði sigurinn Snæfellskonum farseðilinn í úrslitaviðureignina um Íslandsmeistaratitilinn, fjórða árið í röð. Úrslitaeinvígið hefst 17. apríl næstkomandi, annan dag páska. Snæfellskonur hafa því góðan tíma til að safna kröftum og undirbúa sig fyrir úrslitaeinvígið, en þar mæta þær sigurvegaranum úr viðureign Skallagríms og Keflavíkur.