Nú um helgina er á dagskrá tveggja daga Vesturlandsorrusta í körfuknattleik í Borgarnesi. Skallagrímur og Snæfell mætast í Domino's deildum karla og kvenna.
Konurnar ríða á vaðið í dag, laugardaginn 18. febrúar, kl. 16:30 með stórleik umferðarinnar í Domino's deild kvenna. Liðin mættust síðast í undanúrslitum bikarsins þar sem Skallagrímur hafði betur, eins og þekkt er. Snæfell á því harma að hefna. Skallagrímur og Snæfell eru enn fremur jöfn að stigum í 1. og 2. sæti deildarinnar og búast má við því að hart verði tekist á í Borgarnesi í dag, enda mætast þar tvö af bestu körfuknattleiksliðum landsins sem bæði eru líkleg til að gera tilkall til Íslandsmeistaratitilsins.
Á morgun, sunnudaginn 19. febrúar, er síðan komið að körlunum þegar sömu lið mætast í Domino's deild karla. Liðin mættust í Stykkishólmi í haust og þar höfðu Borgnesingar betur eftir æsispennandi tvíframlengdan leik.
Skallagrímur og Snæfell eru í 11. og 12. sæti deildarinnar. Skallagrímur hefur 12 stig, jafn mörg og Haukar í sætinu fyrir ofan og pakkinn þar fyrir ofan, um miðja deild, er mjög þéttur. Skallagrímsmenn horfa því til þess að koma sér upp úr fallsæti og elta sæti í úrslitakeppninni í vor, en 8. sætið er síðasta sætið sem gefur keppnisrétt í úrslitakeppninni. Lið Snæfells er hins vegar fallið eftir tap í síðasta leik. Liðið hefur átt erfitt uppdráttar og ekki enn unnið leik. Engu að síður hafa leikmenn liðsins aldrei lagt árar í bát og enginn býst við öðru en að ungt og upprennandi lið Snæfells muni bera höfuðuð hátt það sem eftir lifir móts.