Karen Jónsdóttir.

„Bragðgóðar, lífrænar og hollar“

Karen Jónsdóttir, sem á og rekur verslanir Matarbúrs Kaju og kaffihúsið Café Kaja, hóf nýverið framleiðslu á lífrænum hrákökum. Eru kökurnar nú komnar í dreifingu og fáanlegar í þremur verslunum Hagkaupa, Ljómalind í Borgarnesi, Fisk kompaníinu á Akureyri og á kaffihúsinu Yogafood, sem Þorbjörg Hafsteinsdóttir á og rekur í JL húsinu í Reykjavík. „Tegundirnar eru átta talsins og sex þeirra eru komnar í framleiðslu. Ég er enn að bíða eftir formum til að halda áfram og bæta hinum tveimur tegundunum við,“ segir Karen í samtali við Skessuhorn. En hvernig kom það til að hún ákvað að hefja framleiðslu á hrákökunum? „Þegar ég opnaði kaffihúsið í sumar ákvað ég að bjóða upp á þessar kökur. Kaffihúsahugmyndin er reyndar búin að vera í kollinum á mér í 15 ár. Ég vildi fara þá leið að sem minnst matarsóun yrði við framleiðsluna. Hrákökur eru í eðli sínu þannig að þær geymast vel, til dæmis í frysti. Með þessari aðferð get ég boðið upp á kökur sem eru í senn mjög bragðgóðar, lífrænar og hollar og á sama tíma minnkað matarsóun,“ segir Karen.

 

Hver kaka er handverk

Lykilhráefnin í hrákökurnar eru fræ, hnetur og hollari sykur. „Ég nota ekki reyrsykur. Samsetningin er þannig að til séu hráefni í þær og að þær séu hollari en hefðbundnar kökur,“ segir Karen sem hefur lengi búið til hrákökur. „Ég þekki hráefnin mjög vel og sé strax hvort mér líst á uppskriftina eða ekki.“ Hver kaka er handverk, búin til frá grunni á Akranesi og mótuð í höndum, lag fyrir lag. Til að geta með góðu móti sinnt framleiðslunni þurfti Karen að stækka húsnæði Matarbúrsins að Kirkjubraut 54, þar sem kökurnar eru framleiddar. „Ég hafði einfaldlega of lítið pláss til að búa til kökurnar áður,“ segir Karen. Því voru settir upp tveir veggir seinni part síðustu viku og þegar hefur nýja eldhúsið verið tekið í notkun og teygir sig yfir í rýmið þar sem Gallerí Urmull var áður til húsa. Matarbúr Kaju og Café Kaja er nú eina starfsemin sem eftir í húsnæðinu. „Ég hef fengið leyfi til að nýta rýmið þar sem Urmull var á meðan enginn tekur það á leigu. Norðurljósamyndir Sollu í Móum prýða veggina þessa dagana og munu gera næsta mánuðinn. Síðan er stefnan að halda fleiri ljósmyndasýningar. Kristjana Halldórsdóttir mun til dæmis setja upp sýningu á húsaljósmyndum sínum, en hún hefur tekið fjölmargar myndir af húsum hér á Akranesi,“ segir Karen og bætir því við að hún hvetur listamenn til að nýta sér aðstöðuna í framtíðinni.

 

Eina lífræna kaffihúsið

Auk þeirra verslana sem taldar voru upp hér í upphafi eru hrákökurnar að sjálfsögðu fáanlegar í verslunum Matarbúrsins á Akranesi og í Reykjavík og á Café Kaju á Akranesi, en kaffihúsið er einmitt eina lífræna kaffihús landsins. Þar er einnig boðið upp á kaffi, þeytinga og frækex. „Í sumar ætla ég að auka úrvalið og verð þá líka með lífrænt brauðmeti. Eini þröskuldurinn hjá mér er að passa að allt sé lífrænt því að lífræni markaðurinn á Íslandi er aftarlega á merinni,“ segir hún og bætir við að hér sé til að mynda hvorki framleitt lífrænt smjör né álegg. „Ég ætla að flytja sjálf inn brauðin. Ég er í samskiptum við franskt bakarí sem er með lífræn baquettebrauð og rúnstykki.“

Að sögn Karenar er mest af lífrænu hráefni sem fáanlegt er hér á landi erlend framleiðsla. „En ég hef haft þá reglu að ef það er til íslenskt lífrænt, þá flyt ég það ekki inn. Hér er til dæmis hægt að fá mjög gott lífrænt bygg frá Móður Jörð og því flyt ég ekki inn bygg,“ segir hún. Eftirspurnina eftir lífrænum vörum segir hún vera töluverða og telur að hún eigi eingöngu eftir að aukast. „Það eru sífellt fleiri sem fara út í hreinan mat. Oft þegar fólk veikist fer það að hugsa um mataræði og fólk er að verða meðvitaðra um mataræði. Það eru fleiri og fleiri sem vilja lífrænt eða hreinan mat, sem er náttúrulega það sama og amma okkar og afi borðuðu,“ segir Karen.

Hún leggur ríka áherslu á að fólk viti hvað það lætur ofan í sig og telur fæsta nægilega meðvitaða um eigið mataræði eða barna sinna. „Foreldrar eru til dæmis ekki nógu vakandi. Barn á leikskólaaldri fær 60% af fæðunni sinni á leikskóla. Þegar þau eru komin á grunnskólaaldur er hlutfallið aðeins minna en engu að síður er fæðan sem boðið er upp á í skólanum uppistaða fæðunnar sem börnin fá. En hvað eru börnin að borða? Að mínum dómi er þetta að hluta til metnaðar- og viljaleysi hjá yfirvöldum að bjóða börnum ekki upp á betri fæðu en gert er. Því er stundum borið við að þau þurfi að fá prótein úr kjöti og að það sé dýrt en það má fá jafn mikið prótein úr baunum og það er mun ódýrara,“ segir hún. „Hægt væri að elda frá grunni á fleiri stöðum en gert er. Margir af einkareknum leikskólum í Reykjavík eru í gömlum húsum og þar eru oft lítil eldhús. Þar er engu að síður eldað frá grunni og ef það er hægt þar, þá ætti það að vera hægt í þessum stærri eldhúsum í skólum á fleiri stöðum,“ segir Karen Jónsdóttir að lokum.

Líkar þetta

Fleiri fréttir