Snæfell mætti Þór Þorlákshöfn í Domino‘s deild karla í körfuknattleik í gærkvöldi. Leikið var í Stykkishólmi og fengu heimamenn að sjá Christian Covile, nýjan leikmann Snæfells, leika sinn fyrsta leik með liðinu. Hann fékk loks leikheimild með Stykkishólmsliðinu í gærmorgun, eins og sagt var frá í frétt á vef Skessuhorns og lét mikið að sér kveða. Það dugði Sæfelli þó skammt, því gestirnir frá Þorlákshöfn tóku leikinn skömmu fyrir hléið og unnu að lokum stórt, 68-99. Gestirnir byrjuðu betur í leiknum og komust í 7-0 eftir þriggja mínútna leik. En eftir að Snæfell skoraði sín fyrstu stig var jafnt á með liðunum til loka upphafsfjórðungsins þar sem gestirnir leiddu 17-18. Áfram var jafnræði með liðunum þar til um miðjan annan fjórðung að Þórsarar náðu sex stiga forskoti og yfirhöndinni í leiknum. Þeir bættu ört við forskotið það sem eftir lifði fyrri hálfleiks og höfðu afgerandi forystu í hléinu, 39-57. Þór var áfram sterkari fyrst eftir hléið, komst í 21 stigs forskot áður en Snæfellingar náðu prýðilegum leikkafla um miðjan þriðja leikhluta og minnkuðu muninn í tíu stig. Þá tóku gestirnir aftur við sér og leiddu með 18 stigum fyrir lokafjórðunginn. Hann var algjör einstefna. Snæfellingar náðu sér ekki á strik, skoruðu aðeins tíu stig allan leikhlutann og að lokum fór svo að Þór sigraði með 99 stigum gegn 63. Fyrrnefndur Christian Covile átti stórleik í sínum fyrsta leik fyrir Snæfell. Hann skoraði 30 stig og tók ellefu fráköst. Árni Elmar Hrafnsson skoraði ellefu stig en aðrir höfðu minna. Snæfell bíður enn eftir fyrsta sigur vetrarins. Liðið vermir botnsætið, stigalaust og tólf stigum frá öruggu sæti í deildinni. Næsti leikur liðsins fer fram fimmtudaginn 2. febrúar næstkomandi þegar liðið heimsækir Stjörnuna.